Tvær stórar og nokkuð ólikar malarkeppnir fóru fram núna í lok júlí. The Rift fór fram 20. júlí með um 800 keppendum og 90% þeirra voru erlendir. Tvær vegalengdir voru í boði 200km og 100km. í 200km keppninni var keppt bæði í atvinnumannaflokki og almenningsflokki. Ingvar Ómarsson náði frábærum árangri en hann vann sig jafnt og þétt upp um sæti í keppnni og í lokin háði hann endaprett við 2 aðra keppendur sem hann vann og náði þarmeð 3. sæti í keppninni. Í almenna flokknum náðu Björg Hákonardóttir og Natalía Reynisdóttir 5. og 8. sæti og Guðmundur Sveinsson og Bjarni Garðar Nicolaisson náðu 7. og 13. sæti í karlakeppninni. Í 100km keppninni voru Júlía Oddsdóttir, Ásta Sölvadóttir og María Sæm Bjarkardóttir í 4., 10. og 11. sæti. Blikar áttu reyndar marga keppendur í þessari keppni sem stóðu sig allir vel.
Um helgina fór svo fram 211km keppni á Vestfjörðum þar sem hjólað var frá Patreksfirði til Ísafjarðar mjög krefjandi leið með yfir 3700 hæðarmetrum. Keppnin var ræst á miðnætti á laugardag og því hjólað um nóttina og vel inn í sunnudaginn með menningarstoppum á milli. Á sama tíma er þessi keppni síðasta dagleið í 4 daga keppni sem byrjar á miðvikudegi og er yfir 950km löng. Blikar áttu nokkra keppendur á þessari síðustu dagleið og kvennakeppnin fór þannig að Íris Ósk Hjaltadóttir vann á tímanum 11 klukkustundir og 23 mínútuur. Kristrún Lilja Daðadóttir varð 2. og María Sæm Bjarkardóttir í 3. sæti, semsagt hreinn Blika-pallur kvennamegin. Í karlakeppninni varð pallurinn einnig vel grænn en  Guðmundur Sveinsson vann karlakeppnina á rúmum 9 tímum og Björn Hallgrímsson varð í 3. sæti rúmum hálftíma á eftir. Blikar munu svo halda áfram að mala því félagið heldur malarkeppnina Grefillinn í Borgarfirði þann 10. ágúst og þarf er hægt að velja um þrjár vegalendir, 45, 100 og 200km.