Dagana 10.-11. ágúst fór fram Norðurlandameistaramót U20 ára í Danmörku en keppt var á Tårnby Stadion rétt fyrir utan Kaupmannahöfn. Ísland og Danmörk tefldu fram sameiginlegu liði en 10 íslenskir keppendur voru í liðinu. Við erum einkar stolt að hafa átt tvo Blika í hópnum en Guðjón Dunbar D. Þorsteinsson keppti í þrístökki og Júlía Kristín Jóhannesdóttir í 100 m grindahlaupi. Íslensku keppendurnir lönduðu tveimur gullverðlaunum og tveimur bronsverðlaunum og átti Guðjón annað bronsið með stökki uppi á 14.47 m sem er persónulegt met. Guðjón setti einnig persónulegt met í langstökki með stökki upp á 6,91 m sem skilaði honum 6. sætinu og þá hljóp Júlía Kristín 100 m grind á tímanum 14,34 sek. og hafnaði í 8. sæti. Við óskum Blikunum okkar og íslenska hópnum eins og hann leggur sig innilega til hamingju með árangurinn!