Fráfarandi framkvæmdastjóri Breiðabliks var síðastliðinn föstudag sæmdur Gullmerki Breiðabliks.
Eysteinn kom fyrst til starfa sem framkvæmdastjóri Knattspyrnudeildar árið 2013 og var svo ráðinn framkvæmdastjóri félagsins í heild árið 2017.
Á þeim tíma sem Eysteinn starfaði hjá Breiðablik fjölgaði iðkendum um 70%, félagið hefur styrkst og eflst og góður árangur hefur náðst innan sem utan vallar.
Eysteinn var frumkvöðull, ásamt öðrum, að gera hið vinsæla Kópavogsblót að veruleika auk þess sem hann kom einnig að stofnun Virkni og Vellíðan sem er vinsælt meðal eldri borgara í Kópavogi, svo fátt eitt sé nefnt.
Eysteinn lagði hjarta og sál sína í starfið og var félaginu ómetanlegur í starfi sínu sem framkvæmdastjóri en ekki síður sem foreldri og sjálfboðaliði.
Eysteinn er verðugur Gullbliki.