Kveðja frá Breiðablik – Svanfríður María Guðjónsdóttir
Heiðursblikinn Svanfríður María Guðjónsdóttir lést þann 13. september síðastliðinn. Svanfríður var frumkvöðull í knattspyrnu kvenna og vann ötullega að uppbygginu hennar innan bæði Breiðabliks og KSÍ. Var hún fyrst kvenna kjörin í stjórn KSÍ. Til marks um áhrif hennar innan knattspyrnuhreyfingarinnar var árið 2023 ákveðið að nefna bikarinn sem keppt er um í Meistarakeppni kvenna „Svanfríðarbikarinn“ henni til heiðurs.
Svanfríður vann griðarlega mikilvægt og gott starf innan Breiðabliks og lagði grunninn að því að gera félagið að því stórveldi sem það er í íslenskri kvennaspyrnu og markaði þannig djúp spor í sögu Breiðabliks. Svanfríður var sæmd nafnbótinni Heiðursbliki árið 2011.
Dóttir Svanfríðar, Ásta María Reynisdóttir var einn farsælasti leikmaður í sögu Breiðabliks og var tekin í frægðarhöll Breiðabliks árið 2016. Þá var Guðjón sonur Svanfríðar liðtækur leikmaður hjá Breiðabliki og þjálfaði um tíma meistaraflokk kvenna hjá félaginu. Eiginmaður Svanfríðar var Reynir Karlsson sem einnig var Heiðursbliki, en hann lést árið 2014.
Stjórn Breiðabliks vottar fjölskyldu Svanfríðar samúð og minnist hennar með þakklæti og virðingu.
Fyrir hönd Breiðabliks,
Ásgeir Baldurs
Formaður Breiðabliks