Meistaramót Íslands 11-14 ára innanhúss fór fram í Kaplakrika 8.-9. febrúar og er óhætt að segja að mikil og góð stemning hafi verið í húsinu alla helgina. 315 keppendur voru skráðir til leiks frá félögum víðs vegar af landinu og þar á meðal voru 27 glaðir og grænir Blikar.
Árangurinn lét svo sannarlega ekki á sér standa en heil 888 persónuleg met voru sett á mótinu og þar af voru 88 bætingar hjá unga fólkinu okkar. Blikar unnu alls 8 gull, 5 silfur og 6 brons og urðu Íslandsmeistarar í tveimur flokkum hjá 12 og 14 ára stúlkum.
Við gætum ekki verið stoltari af hópnum okkar sem sýndi allt í senn sterka liðsheild, seiglu og metnað á sama tíma og gleðin var allsráðandi alla helgina. Við óskum krökkunum okkar innilega til hamingju með frábært mót og hlökkum til að fylgjast með þeim á næstu mótum og hvetja til dáða.
Heildarúrslit mótsins og skiptingu verðlauna má sjá á vefsíðunni mot.fri.is
http://mot.fri.is/MotFRI/SelectedCompetitionResults.aspx?Code=M-00001574