Þórður er einn af máttarstólpum frjálsra íþrótta hjá UMSK og Breiðabliki, bæði sem keppandi og stjórnarmaður. Hann átti glæsilegan hlaupaferil og setti á ferli sínum fjölmörg met. Hann varð fyrsti frjálsíþróttamaður Breiðabliks sem vann til Gullverðlauna á Landsmóti UMFÍ á Laugarvatni 1965. Sama ár var hann valin í landsliðið sem keppti við Skota. Árið 1968 varð hann Íslandsmeistari í 600 og 1.000 metra hlaupi innanhúss. Hann setti á hlaupaferli sínu, fjölmörg UMSK met.
Eftir að keppnisferli Þórðar lauk snéri hann sér að félagsstörfum. Hann sat lengi í stjórn frjálsíþróttadeildar Breiðabliks og þar af drjúgan tíma sem formaður deildarinnar. Þórður gaf mikið af sér í félagsstörfum bæði innan Breiðabliks og ekki síður innan UMSK allt til þessa dags. Þórður var ómissandi hjálparhella við allt mótahald og kom að frjálsíþróttamótum innan Breiðabliks og UMSK sem og undirbúningi UMSK fyrir Landsmót UMFÍ eins lengi og elstu menn muna. Framlag Þórðar á þeim vettvangi er ómetanlegt bæði fyrir Breiðablik og ekki síður UMSK.
Þórður hlaut Gullmerki Breiðabliks árið 1995, var gerður að Heiðursblika árið 2000, Gullmerki Frjálsíþróttasambands Íslands árið 2000, Silfurmerki UMSK árið 2002, Gullmerki UMSK árið 2008, Starfsmerki UMFÍ árið 2002 og Gullmerki UMFÍ árið 2016. Þá hlaut hann Gullmerki ÍSÍ 2005.
Á myndinni eru: Jóhann Þór Jónsson varaform. Breiðabliks, Hafsteinn Pálsson ÍSÍ, Þórður Guðmundsson, Valdimar Leó Friðríksson ÍSÍ og Guðmundur G. Sigurbergsson form. UMSK. Svo er mynd af samstarfsmönnum til margra ára Kristjáni Jónatanssyni og Þórði Guðmundssyni.

