Íslandsmeistaramótið í sundi Í 50 metra laug fór fram um síðustu helgi. Mótið var mjög sterkt að þessu sinni en allt okkar besta sundfólk sem æfir og keppir erlendis kom heim til að taka þátt í mótinu. Mótið fór þannig fram að undanrásir voru syntar um morgun og svo var gert hlé um hádegi og úrslit hófust kl. 16 síðdegis.
Sunddeild Breiðabliks var með öflugt lið á mótinu sem náði frábærum árangri. Deildin náði í 5 Íslandsmeistaratitla í einstaklingsgreinum og tvo Íslandsmeistaratitla í boðsundum.
Patrik Viggó Vilbergsson náði bestum árangri Blika en hann varð þrefaldur Íslandsmeistari, í 800m og 1500m skriðsundi og í 400m fjórsundi. Hann setti einnig 5 piltamet (15-17 ára) á mótinu, fyrst í 400m skriðsundi á föstudeginum. Á laugardag setti hann piltamet í 100m skriðsundi og skömmu síðar setti hann tvö piltamet í 1500m skriðsundi þar sem millitími hans eftir 800m var betri en gamla Íslandsmetið í piltaflokki í 800m skriðsundi. Daginn eftir bætti Patrik svo metið í 800m skriðsundi þegar það sund var synt. Patrik náði einnig lágmarki í 800m og 1500m skriðsundi á Evrópumeistaramót unglinga (EMU) sem fram fer í Kazan í Rússlandi í júlí í sumar. Aðrir Íslandsmeistarar deildarinnar urðu Brynjólfur Óli Karlsson í 200m baksundi og Ragna Sigríður Ragnarsdóttir í 400m skriðsundi.
Einnig má nefna að Freyja Birkisdóttir náði 2. sæti í 1500m skriðsundi en hún er fædd árið 2006 og var yngsti verðlaunahafi mótsins. Freyja hefur náð lágmörkmum á Norðurlandamót Æskunnar sem fram fer í Kaupmannahöfn í júli. Sunddeildin mun því eiga þrjá sundmenn sem keppa í unglingaflokki á stórum mótum erlendis í sumar en auk Freyju og Patriks hefur Kristín Helga Hákonardóttir náð lágmarki fyrir Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar (EYOF) sem fer fram í Baku Azerbaijan í júlí.