Það var mikill heiður fyrir þríþrautardeild Breiðabliks þegar Guðlaug Edda Hannesdóttir gekk nýverið til liðs við félagið. Guðlaug Edda stefnir á að vera fyrsti Íslendingurinn sem keppir fyrir hönd Íslands í þríþraut á Ólympíuleikunum í Tókýó 2020. Til þess að ná þeim árangri æfir Guðlaug Edda með danska landsliðinu í þríþraut og tekur þátt í keppnum á vegum Alþjóða þríþrautarsambandsins, ITU (International Triathlon Union) og Evrópska þríþrautarsambandsins (European Triathlon Union).
Guðlaug Edda keppti á ETU Evrópubikar fyrir þremur vikum, sem fram fór í Huelva á Spáni. Keppt var í Ólympískri vegalengd (1,5 km sund, 40 km hjól og 10 km hlaup) og synt í sjó. Guðlaug var 7. úr sjónum og átti góða þraut og endaði í 8. sæti af 48 konum á tímanum 2:09:49. Stór glæsilegur árangur hjá okkar konu og óskum við henni innilega til hamingju.