Hilmar Pétursson hefur samið við Breiðablik um að leika með liðinu á komandi keppnistímabili. Hilmar byrjaði síðasta tímabil með Keflavík og lék 15 leiki fyrir Bítlabæjarliðið þar sem skilaði hann að meðaltali sex stigum, tveimur stoðsendingum og tveimur fráköstum á rétt rúmum 16 mínútum í leik í Dominosdeildinni. Hilmar færði sig svo um set og lauk tímabilinu með uppeldisfélagi sínu Haukum.

Þessi bráðefnilegi og kornungi leikmaður sem fæddur er árið 2000 varð á dögunum Íslandsmeistari með Haukum í drengjaflokki, þar sem hann skoraði 30 stig, hirti átta fráköst, og gaf þrjár stoðsendingar í úrslitaleik gegn KR. Þá var Hilmar valinn leikmaður úrslitaleiksins.

Það er gaman að segja frá því að Hilmar Pétursson er sonur Péturs Ingvarssonar, nýráðins þjálfara Breiðabliks. Er þetta ekki í fyrsta skipti sem Hilmar spilar fyrir pabba sinn, en hann var lykilleikmaður hjá Hamri í 1. deildinni tímabilið 2016-2017 þar sem þeir feðgar fóru alla leið í oddaleik gegn Val í úrslitaeinvíginu um sæti í Dominosdeildinni það árið.

Engin þörf á að birta „kvót“ frá þjálfaranum í þetta skiptið, við gefum okkur það að hann sé hæstánægður með nýjasta leikmann Breiðabliks.
Við hjá Körfuknattleiksdeild Breiðabliks bjóðum Hilmar hjartanlega velkominn í Kópavoginn.