Kæru foreldrar barna í yngri flokkum Breiðabliks.
Fyrir hönd Barna- og unglingaráðs vil ég nota tækifærið í upphafi vetrarstarfsins til að fara yfir stöðuna á nokkrum verkefnum sem eru í gangi innan félagsins og snúa beint að yngri iðkendum.
Ég vil líka nota tækifærið og þakka fyrir frábært Blika-sumar en það hefur verið magnað að fylgjast vægast sagt frábærum árangri yngri flokka félagsins sem hafa spilað fjölmarga úrslitaleiki á undanförnum vikum í öllum flokkum. Í meistaraflokkum karla og kvenna er framundan tveir stórleikir sem ég vil hvetja alla Blika til að mæta á en á laugardaginn spila strákarnir úrslitaleikinn í Mjólkurbikarnum á Laugardalsvelli og á mánudag spila Bikarmeistararnir okkar í kvennaflokki við Selfoss á Kópavogsvelli og geta þar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn.
Í mars síðastliðnum var boðað til félagsfundar í Breiðablik til að minna á áherslumál og tillögur félagsins vegna viðvarandi aðstöðuleysis yngri flokka félagsins sem fara sífellt stækkandi í kjölfar nýrra íbúðasvæða sem nú eru að komast í notkun í Kópavogi. Niðurstaða bæjaryfirvalda var að setja málin í aðeins annan farveg en tillögur okkar hljóðuðu um en miðað við þann metnað sem lagður er í uppbyggingu í Fagralundi og Kórnum, að ekki sé minnst á Kópavogsvöll, teljum við að við megum vel við una. Í vikunni var hafist handa við að fjarlægja gamla gervigrasið af Fagralundi og er stefnt að verklokum þar um miðjan nóvember. Ég fer ekki út í röksemdafærslu hvað varðar gras eða gervigras á aðalvellinum en það er samt ljóst að gervigras á Fagralundi og á Kópavogsvelli mun gjörbylta æfingaaðstöðu yngri flokka og gera það að verkum að frá og með haustinu 2019 verðum við sjálfum okkur nóg með æfingaaðstöðu næstu árin. Þetta er gríðarlega stór áfangi og gerir það vonandi að verkum að við getum gert æfingaáætlun yngri flokka bæði fyrirsjáanlegri og markvissari og skilum vonandi frá okkur enn hærri gæðum í æfingum yngri flokka.
Verið er að færa æfingaáætlun og breytingar á henni sem mest af Facebook eða skilaboðaformi yfir á Sportabler en viðtökur á því kerfi hafa almennt verið mjög góðar og er núna markmiðið að bæta við þeim flokkum sem uppá vantar til að klára innleiðingu hjá öllum iðkendum knattspyrnudeildar. Þó svo ekki sé ætlast til þess að yngstu börnin fylgist með þar þá hefur reynslan sýnt okkur að þetta kerfi hentar mjög vel til að miðla upplýsingum um leiki og æfingar til foreldra og iðkenda. Farið verður sérstaklega yfir bæði þessi atriði á kynningarfundum yngri flokka sem ég vil hvetja alla foreldra til að mæta á nú byrjun október. Á þessum fundum eru umsjónarmenn hvers flokks valdir og skiptir þar gríðarlega miklu máli að foreldrar bjóði sig fram í þessi verkefni því það hefur því miður sýnt sig á undanförnum árum að ef ekki er sterkt bakland í umsjónarmönnum þá vilja skilaboð innan úr félaginu ekki verða eins markviss og eins skiptir þetta mjög miklu máli í þeim flokkum þar sem fyrirhugaðar eru æfinga- eða keppnisferðir.
Undanfarin ár hafa íþróttafélögin í Kópavogi rekið sjálfstæða akstursþjónustu sem mörgum hefur þótt frekar furðulegt og ekki skynsamleg nýting á fjármunum. Það var eitt af áherslumálum okkar í Barna- og unglingaráði að koma þessum málum í fastari farveg fyrir þetta haust og er virkilega gaman að sjá þetta verða að veruleika í gengum SÍK (Samstarfsvettvang Íþróttafélaga í Kópavogi). Fyrstu vikurnar eru prufutími sem á að nýta til að fínpússa áætlun og umfang því eðlilega koma alltaf upp einhver atriði sem má bæta en við bindum vonir við að þessi þjónusta sé komin til að vera.
Símamótið tókst frábærlega í ár en þar spiluðu rúmlega 2.200 stelpur frá 42 íþróttafélögum samtals 1.312 leiki við frábærar aðstæður í Smáranum. Mótið var stækkað örlítið frá fyrra ári til að mæta aukinni eftirspurn en við teljum að þessi stærð sé viðráðanleg og henti okkur vel. Símamótið er borið uppi af sjálboðaliðum úr röðum foreldra í yngri flokkum en án þeirra væri verkefnið hreinlega óyfirstíganlegt. Við erum að manna um 500 foreldravaktir frá miðvikudagseftirmiðdegi fram á sunnudagskvöld og skiptir því miklu að þeir sem sækja um og fá afslátt af æfingagjöldum
yfirstandandi árs standi sína vakt því þó allt hafi gengið vel í ár þá voru um 20% afföll af þeim sem skráðu sig á vaktir sem setur eðlilega talverða pressu á þá sem eftir standa. Aðkoma Kópavogsbæjar var til fyrirmyndar og eiga starfsmenn framkvæmdasviðs og áhaldahúss miklar þakkir skildar fyrir þeirra framlag. Við hlökkum til næsta Símamóts sem verður dagana 11-14 júlí 2019 og ekki seinna vænna en að setja það í dagatalið og taka tímann frá.
Búningasamningar eru lausir núna í haust en þá rennur núverandi samningur við Jako sitt skeið á enda. Búninganefnd félagsins er þess dagana að störfum og vonast til að klára það verkefni á næstu vikum þannig að nýjir búningar geti mögulega verið hluti af jólapakkanum til yngri iðkenda.
Inn í æfingaáætlun haustsins verður tvinnað þrek- og styrktaræfingum með markvissari hætti en gert hefur verið áður. Við munum fá til liðs við okkur þjálfara sem munu taka skipulagðar styrktaræfingar inn í hverjum flokki til viðbótar við hefðbundnar æfingar. Þetta verkefni er sett í gang meðal annars til að setja áherslu á styrk og þrek í stað þess að horfa mest til á tækniæfingaa og spilamennsku
Í haust eru nokkra nýjungar sem ég vil nefna sem ætlað er að auka enn frekar þjónustu innan okkar svæðis. Þar má nefna íþróttaskóla 1-4 bekkjar í Fagralundi fyrir börn sem ekki eru búin að taka ákvörðun um íþrótt en vilja prófa sig áfram og sjá hvað hentar. Þarna verður lögð áhersla á að kynna fyrir þeim fótbolta, handbolta, frjálsar, blak og fleira og verður spennandi að sjá hvernig þessu verkefni reiðir fram en námskeiðið er að hefjast þessa daganna. Foreldrar iðkenda í 8. flokki geta nú komist í leikfimi á meðan krakkarnir sinna æfingum. Þetta er skemmtilegt tilraunarverkefni sem verið er að keyra áfram af áhugasömum foreldrum í félaginu og geta allir tekið þátt sem vilja.
Ef óskað er frekari upplýsinga um eitthvað að ofan má endilega hafa samband við starfsmenn félagsins en allar upplýsingar má nálgast á heimasíðunni www.breidablik.is. Þar má einnig finna nöfn og netföng þeirra frábæru einstaklinga sem saman mynda Barna- og unglingaráð Breiðabliks.
Áfram Breiðablik. Alltaf !
Jóhann Þór Jónsson
Formaður Barna- og unglingaráðs