Landsliðskonan og blikinn Svana Katla Þorsteinsdóttir keppti í dag sunnudaginn 14.október á sterku móti, 6th Central England International Open, í Worcester Englandi. Mótið var fjölmennt, um 500 þátttakendur voru skráðir og þar af 18 keppendur í kata kvenna, Ísland átti 11 keppendur á mótinu bæði í kata og kumite. Í fyrstu tveimur umferðum mætti Svana Katla enskum stúlkum. Svana framkvæmdi kata Unsu í 1.umferð á móti Vickey Shurey og kata Enpi í 2.umferð á móti Bridie Shaw, Svana vann þessar umferðir örugglega, en helmingur keppenda dettur út í hverri umferð. Í undanúrslitum mætti Svana írönsku stúlkunni Roya Akrami meða kata Gojushiho-Dai og var það jöfn viðureign sem fór svo að sú íranska vann 2-1. Í viðureigninni um bronsið mætti Svana Mia Daniels, þar framkvæmdi Svana kata Kanku Sho og vann viðureignina 3-0 og því bronsið hennar.

Þetta eru önnur verðlaun Svönu á erlendu móti nú í haust og góð æfing fyrir Heimsmeistaramótið í karate sem verður næsta verkefni Svönu. Heimsmeistaramótið verður haldið í Madrid Spáni dagana 6-11.nóvember næstkomandi.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Svönu Kötlu með verðlaun sín. Á seinni myndinni má sjá landsliðshópinn með verðlaun sín.