Hjólreiðadeild Breiðabliks hélt gott partý í gærkvöldi til að fagna árangri ársins og nýju og hressu fólki sem kom til liðs við deildina í haust. Breiðablik eignaðist 3 nýja Íslandsmeistara á árinu sem unnu samtals 6 Íslandsmeistaratitla á 5 Íslandsmótum (kk og kvk). Það eru Rannveig Guicharnaud og Rúnar Örn Ágústsson sem urðu Íslandsmeistarar í tímatöku og svo Ingvar Ómarsson sem varð Íslandsmeistari í götuhjólreiðum, maraþonfjallahjólreiðum, olympic fjallahjólreiðum og cyclocross. Hjólreiðadeildin verðlaunaði þessa Íslandsmeistara með seðlum fyrir hvern Íslandsmeistaratitil. Rannveig var krýnd hjólreiðakona Breiðabliks árið 2018 og Ingvar hjólreiðakarl Breiðabliks árið 2018 en hann var jafnframt kjörinn hjólreiðamaður ársins hjá HRÍ fyrir skömmu. Gleðin dundi svo langt fram á nóttina og þau hörðustu mættu í eftirpartý í Sporthúsinu undir morgun. Semsagt gott að hjóla í Kóbbbavojy.