Fimmtudaginn 11. apríl gerðu Menntaskólinn í Kópavogi og íþróttafélögin Breiðablik, Gerpla og HK með sér samstarfssamning um afrekssvið íþrótta  við skólann. Undirritun fór fram í Menntaskólanum í Kópavogi.

Markmið afrekssviðsins er að bjóða nemendum skólans sem stunda íþróttir í félögum innan raða ÍSÍ vettvang til að stunda þær samhliða námi. Námið er kröfuhart en býður upp á sveigjanleika og stuðning fyrir keppnisfólk sem vill ná árangri á báðum vígstöðvum. Námið er unnið í nánu samstarfi með íþróttafélögunum í Kópavogi. Nemendur sem stunda íþrótt sína í öðrum félögum eru að sjálfsögðu velkomnir og verður nám þeirra skipulagt í samvinnu við félag þeirra. Daði Rafnsson hefur verið ráðinn fagstjóri afrekssviðs.

Menntaskólinn í Kópavogi væntir mikils af afrekssviðinu og leggur metnað í að gera það sem best úr garði. Íþróttafélögin í Kópavogi eru með þeim öflugri á landinu og margt af besta íþróttafólki landsins hefur alist upp innan þeirra raða. Þau ganga saman til verks við að styðja við afrekssvið MK til að gera enn betur við sitt efnilegasta íþróttafólk.