Knattspyrnudeild Breiðabliks fjárfesti á dögunum í nýjustu tækninni í fótbolta. Um er að ræða myndavél og meðfylgjandi forrit sem að ganga undir nafninu VEO. Tæknin kemur frá sprotafyrirtæki í Danmörku. Myndavélin er að sjálfsögðu græn og inniheldur tvær linsur sem hvor um sig býr yfir svokallaðri 4k upplausn. Snilldin við þessa myndavél er að sjónsvið hennar er 180 gráður.  Það gerir henni kleift að sjá allan völlinn í einu þó svo að henni sé stillt alveg upp við hliðarlínu.

En það er ekki allt! Það að sjá allan völlinn í einu er bara einn af þremur sýndarmöguleikum græjunnar. Meðfylgjandi forrit býr einnig yfir þeirri gervigreind að fylgja eftir bolta og jafnvel zoom-a inn og út eftir aðstæðum. Þriðji möguleikinn er svo að maður getur algjörlega stjórnað því sjálfur hvaða hluta vallarins maður horfir á. Sem dæmi má nefna að á meðan klippa úr leik spilast er hægt að draga sjónarhornið yfir á þann hluta vallarins þar sem enginn bolti er og til að mynda bara markmaður. Þannig er hægt að sjá hverja einustu staðsetningu og hreyfingu hjá hverjum leikmanni fyrir sig. Það er meira segja hægt að fylgjast með því hvort að foreldrarnir á hliðarlínunni séu ekki alveg öruglega að haga sér vel. J

Aðrir möguleikar forritsins eru þeir að hægt að er fá upp ákveðnar línur og kassa á völlinn til þess að gera sér betur grein fyrir staðsetningum og svæði leikmanna. Auk þess er hægt, með aðgangi, að klippa út brot, skrifa um þau og jafnvel merkja viðeigandi einstaklinga svo sem leikmenn og þjálfara, sem þá fá sendan tölvupóst með klippunum. Þess ber að geta að forritið klippir sjálft út öll mörk, upphaf og lok hvers hálfleiks.

Keyptar voru tvær svona myndavélar og jafn margir þrífótar. Annar þrífóturinn nær mest 3.8m hæð en hinn hvorki meira né minna en 7.3m hæð og eiga þeir víst að geta staðið af sér mestan vind. Prófanir hafa gengið vel og hafa nú þegar verið teknir upp 10 leikir samtals í 4.,3. og 2.fl. Til stendur að taka upp tvo 5.fl leiki samtímis á allra næstu dögum. Enn einn handægi kostur græjunnar er að  hægt er að kveikja á og stöðva upptöku í gegnum síma. Hægt er að taka upp allt að 4klst af efni. Þjálfararnir okkar hafa verið að fikra sig áfram með þessa nýjustu tækni og ætti þetta bara að verða skilvirkara og betra með hverjum deginum!

Hérna má sjá leik og hvernig hægt er að nýta myndavélina og hvernig kerfið virkar:

https://app.veo.co/matches/20190529-3flkk-a1-selfoss/