Það er búið að ganga mjög vel hjá hjólreiðadeild Breiðabliks í sumar. Æfingar í vor og sumar voru mjög vel sóttar enda er þetta sennilega eitt besta hjólasumar sem hefur komið í borg bleytunnar í mörg ár. Barnanámskeiðin og unglingafjallahjólaæfingarnar gengu líka mjög vel í sumar hjá deildinni. Núna eru skipulagðar æfingar í sumarfríi (ekki þjálfarar á æfingum) en við byrjum aftur á þriðjudegi eftir Verslunarmannahelgi.

Keppnislega hefur deildin náð frábærum árangri í sumar. Þar fer Ingvar Ómarsson fremstur. Hann hefur unnið nánast öll mót sem hafa farið fram á landinu og náði þeim árangri um siðustu helgi að vinna 100. hjóreiðamótið sitt. Ingvar er búinn að landa þremur Íslandsmeistaratitlum, þar af einum nýjum titli sem hann hefur ekki unnið áður en það var í tímatöku. Í því móti átti Breiðablik efstu þrjá karla og þá sem hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn síðustu þrjú ár. Ingvar varð einnig Íslandsmeistari í maraþonfjallahjólreiðum og olympískum fjallahjólreiðum. Ingvar hefur einnig náð fínum árangri í keppnum erlendis í efsta styrkleika hjá Alþjóða hjólreiðasambandinu (UCI). Af öðrum hjólurum í félaginu má nefna að Rúnar Örn varð bikarmeistari í tímatöku og Hákon númer 2. Rannveig og Margrét Páls urðu númer 2 og 3 í tímatökubikarnum.  Kristófer Gunnlaugsson varð Greifameistarinn á hjólreiðahelgi Greifans um síðustu helgi með 2 gull og 2 silfur.  Björg Hákonardóttir vann mastersflokkinn í götuhjólabikarnum og Sæþór vann þann bikar karlamegin. “Gamla” knattspyrnuhetjan Kristrún Lilja Daðadóttir tók tvo sigra í þessari bikarmótaröð og endaði í 2. sæti í heilda og Arna Ösp í 3. sæti í heildarkeppninni. Hrefna Sigurbjörg vann mastersflokkinn í síðustu tímatöku við Kleifarvatn og Steinunn Erla vann almenningflokkinn í gangamótinu á Greifahelginni. Aðrir öflugir Blikar hafa verið að berjast á topp 10 í götu-, tímatöku og fjallahjólunum og höfum við stundum átt um helming hjólara í toppsætunum.
Við erum byrjuð að undirbúa haustið og veturinn inni og má búast við spennandi fréttum af þeim málum fljótlega en munum njóta þess að hjóla úti í blíðunni sem verður vonandi áfram út sumarið.