Breiðablik hefur í sumar tekið á móti Björk Varðardóttur nemanda í íþróttafræði við Háskólann í Reykjavík. Hluti af BSc námi í íþróttafræði er að ljúka einingum í verknámi þar sem nemendum gefst færi á að kynnast undirstöðuatriðum í þjálfun og kennslu þar sem Björk hefur tekið þátt í starfsemi félagsins. Háskólarnir brugðu á það ráð að auka framboð á sumarnámi í kjölfar ástandsins, sem skapast hefur vegna Covid-19 og er verknám eitt af því sem boðið var upp á að taka í sumar. Íþróttaiðkun snertir marga fleti samfélagsins og nám í íþróttafræði býður upp á margvísleg störf, því erum við stolt af því að geta veitt góða innsýn í námið í samstarfi við háskólann. Verkefnin sem við bjóðum upp á eru bæði stór og smá en þar hefur Björk tekið þátt í undirbúning á stórum mótum eins og Símamótinu, kynnst samstarfi við okkar helstu styrktaraðila, tekið þátt í sumarnámskeiðum og önnur tilfallandi verkefni. Hjá Breiðablik starfar stór hópur vel menntaðra þjálfara með margvíslegan bakgrunn. Félagið heldur úti fjölbreyttri starfsemi í 11 deildum, auk þess sem hjá okkur er líka starfrækur hlaupahópur, íþróttaskóli barna 2 – 5 ára og leikfimi eldri borgara sem sýnir vel hversu fjölbreytt starfsemin er.
Björk hóf nám í íþróttafræði haustið 2018 og stefnir á að útskrifast sem íþróttafræðingur sumarið 2021, þá hefur hún stundað líkamsrækt frá því hún var 15 ára gömul og hefur hún unnið mikið sem þjálfari og kennari innan líkamsræktastöðva ásamt því að sinna þjáfun barna í skipulögðu tómstunda og íþróttastarfi innan Kópavogs. Björk er 34 ára, ólst upp í Reykjavík en hefur búið í Kópavogi síðastliðin 6 ár og er hún móðir tveggja drengja. Að BSc námi loknu stefnir hún svo á MEd-gráðu í íþróttafræði. Björk ferðaðist mikið erlendis eitt árið og vann á tíma sem nuddari, yoga og pilates kennari á skemmtiferðaskipi sem sigldi bæði um Atlandshafið og Miðjarahafið. Fyrir það lauk hún sveinsprófi í snyrtifræði ásamt meistararéttindum í því fagi, eins hefur hún lokið einkaþjálfaranámi hjá Keili og því er námið sem hún stundar núna í Háskólanum í Reykjavík frábær viðbót við þann flotta feril sem hún hefur að baki. Í náminu hefur hún einnig kynnst því hvernig má nota rannsóknir og tækni til að efla þjálfun og lýðheilsu almennings og hefur tekið virkan þátt samhliða náminu í afreksmælingum innan sérsambanda Íþrótta og ólympíusamband Íslands. Við bjóðum hana velkomna til starfa í sumar og hlökkum til að fylgjast með þeim verkefnum sem hún tekur sér fyrir hendur í framhaldi.