B lið Breiðabliks í 3.flokki kvenna varð Íslandsmeistari á föstudaginn var en þær fóru taplausar í gegnum B liða keppnina. Þær unnu átta leiki og enduðu með markatöluna 32-6, glæsilegur árangur hjá þeim.
Breiðablik og Afturelding léku til úrslita í 5.flokki karla D liða í Fífunni á sunnudagsmorgun, skemmst er frá því að segja að Afturelding hafði sigur 4-2 og þurftu Blikar að sætta sig við annað sætið að þessu sinni en flottur árangur eftir sem áður.
Breiðablik var svo Íslandsmeistari í 4.flokki kvenna A liða eftir jafnan leik gegn Víkingi á sunnudag. Grípa þurfti til framlengingar til að útkljá úrslitin en að lokum sigruðu Blikar 1-0 og það var Margrét Brynja Kristinsdóttir sem skoraði sigurmarkið rétt fyrir leikslok.
4.flokkur kvenna í B liða keppni léku úrslitaleik gegn Víkingi á Víkingsvelli kl. 17 á mánudag. Leiknum lauk með sigri Breiðabliks 2-0 og mörkin skoruðu þær Birna Karen Kjartansdóttir og Lilja Þórdís Guðjónsdóttir.
3.flokkur karla lék einnig til úrslita í bikarkeppni gegn Fjölni á Kópavogsvelli í gærkvöldi. Leiknum lauk með sigri Fjölnismanna 3-1 svo Blikar þurftu að sætta sig við annað sætið. Mark Blika skoraði Gísli Gottskálk Þórðarson.
Í kvöld hefst svo úrslitakeppni í 3.flokki kvenna og mun Breiðablik mæta FH stelpum í undanúrslitum. Úrslitakeppni í 3.flokki karla hefst von bráðar en þar eiga Blikar lið í úrslitakeppnum A, B og C liða.
Það er því óhætt að segja að Blikar séu áberandi á öllum vígstöðvum.