Heimsmeistaramótið í götuhjólreiðum er í fullum gangi á Ítalíu þessa dagana. Keppnin byrjaði á fimmtudaginn á tímatöku kvenna og tímataka karla fór fram í gær. Hjóluð var 31,7 km braut um sveitir Emilia Romagna en brautin endaði svo inn á hinni heimsfrægu Imola kappakstursbraut þar sem keppendur tóku einn hring fyrir endamarkið. Brautin var nokkuð krefjandi á köflum og fyrrverandi heimsmeistari kvenna lenti t.d. í því óhappi að hjóla á vegrið og steypast niður brekku og slasast töluvert. Einnig var töluverður vindur á brautinni í gær sem gerði keppnina enn áhugaverðari.
Fimm keppendur eru frá Íslandi á mótinu og á Breiðablik tvo þeirra, þau Margréti Pálsdóttur og Ingvar Ómarsson, en þau kepptu bæði í tímatökunum. Vitað var fyrirfram að það yrði snúið að etja kappi við bestu hjólara heims en þau stóðu sig bæði mjög vel. Margrét kemur heim eftir helgina en Ingvar mun dvelja áfram í Evrópu og taka þátt í tveimur heimsbikarmótum í fjallahjólreiðum í Tékklandi í október og svo á heimsmeistaramótinu í ólympískum fjallahjólreiðum í Austurríki. Við óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn og hlökkum til að fá þau heim aftur. 🇮🇸
📷 Hörður Ragnarsson