Fallinn er frá einn af stofnendum Skíðadeildar Breiðabliks og fyrsti formaður félagsins, Guðmundur Theodór Antonsson, en hann lést á heimili sínu að Gullsmára 7 laugardaginn 19. febrúar s.l..  Hann var heiðursfélagi Breiðabliks.

Gummi var fæddur á Ísafirði 11.02.1943 og ólst þar upp fram að unglingsárum en fluttist þá suður í Kópavoginn ásamt móður sinni Guðríði Sigurðardóttur f. 06.07.1921 d. 18.10.1996 og stjúpa sínum Friðþjófi Hraundal f. 15.09.1918 d. 01.01.2008, en þau voru frumbyggjar Kópavogs og byggðu sjálf sitt hús að Kársnesbraut 78 árið 1951.  Gummi byrjaði ungur að vinna hjá RARIK en síðan nam hann málaraiðn hjá föður síðum, Jóhanni Antoni Bjarnasyni f. 11.08.1914 d.16.12.1992, og varð málarameistari.  Gummi tók síðan við fyrirtæki föður síns þegar faðir hans lét af störfum.  Síðar stofnaði Gummi sitt eigið fyrirtæki, í sínu nafni, sem hann rak þar til hann hætti störfum sökum aldurs og heilsu.  Var Gummi vel þekktur innan málarastéttarinnar en mjög margir leituðu eftir vinnukröftum hans og sá hann um að viðhalda mörgum þekktum byggingum hér á landi.  Gummi var mikill Kópavogsbúi og bjó hann þar alla tíð að undanskyldum fyrstu æviárunum.  Hann byggði sjálfur sér og fjölskyldunni hús að Fögrubrekku 32 og síðan að Hlíðarhjalla 45. Gummi var kvæntur Önnu Guðrúnu Árnadóttur f. 29.05.1941 d. 08.10.1999.  Þau áttu 3 börn og 17 barnabörn.  Seinni sambýliskona Gumma var Sigríður Kristjánsdóttir f. 27.11.1946  d. 25.11.2016.  Saman áttu þau heimili að Háulind 9 en Gummi bjó síðustu æviárin að Gullsmára 7 eins og áður segir.

 

Þegar Reykjavíkurborg flutti starfsemi skíðaiðkunar upp í Bláfjöll og fór að úthluta félögum svæði varð Gumma nóg boðið því hann vissi að Kópavogsbær átti stóran eignahluta í Bláfjöllum.  Hann gekk þá á fund bæjaryfirvalda og þrýsti á að bærinn mundi passa upp á sitt og fá sitt svæði þar upp frá.  Honum var falið að fara fyrir hönd Kópavogsbæjar á fundi með skipulagsaðilum í Reykjavík og finna Kópavogsbæ gott svæði. Í framhaldi af þessu var haldinn stofnfundur skíðadeildar Breiðabliks í Félagsheimili Kópavogs þann 14.12.1972 þar sem Gummi var kosinn formaður.

 

Gummi setti heilmikla vinnu og kraft í þetta félag og gerði sér grein fyrir að það þyrfti að helga sér svæði í Bláfjöllunum og var það valið norðan Ármannssvæðisins. Þangað var dreginn vinnuskúr á hjólum og var það fyrsta aðstaðan. Menn gerðu sér einnig grein fyrir að það þyrfti lyftu og var ráðist í kaup á dráttarvél sem gæti snúið kaðalspili. Til að traktorinn gæti haldið strekkingu á kaðli þurfti að fá á hann svokölluð Hillarys´belti sem fundin voru og keypt. Sveinn Gíslason breytti hásingu svo hún gæti snúið kaðlinum. Öll þessi vinna allra frumkvöðla skíðadeildarinnar var unnið í sjálfboðavinnu af miklum dugnaði og harðfylgni.  Þetta var allt gert þrátt fyrir að deildin væri ný og peningalaus.

 

Gummi var félagi í Kiwanishreyfingunni Eldey í Kópavogi.

 

Útför Gumma fór fram frá Lindakirkju föstudaginn 4. Mars.