Glæsilegt Símamót og fleira

 

Nú er Símamótinu einum af hápunktunum í starfi knattspyrnudeildar Breiðabliks lokið. Mótið sem var hið 38. í röðinni fór afar vel fram og var keppendum til sóma.

Mót sem þetta og sá mikli undirbúningur og skipulag sem þarf til verður ekki til að sjálfu sér. Undirbúningurinn er langur og margþættur og hundruð atriða sem þurfa að vera á hreinu. Ég vil fyrir hönd knattspyrnudeildarinnar þakka sérstaklega Barna- og unglingaráði og mótstjórn, starfsfólki Breiðabliks sem og öllum þeim fjölda sjálfboðaliða sem stóðu sínar vaktir á mótinu og sinntu allskyns verkefnum, frá bílastæðavörslu til dómgæslu. Ég vil líka þakka styrktaraðilum mótsins og Kópavogsbæ fyrir samstarf og stuðning. Það er þessi trausti undirbúningur og skipulagning sem er eitt af því sem gerir Símamótið af þessum einstaka og skemmtilega viðburði. Takk þið öll.

Þátttakendum og fylgdarliði þeirra þakka ég fyrir komuna í Kópavoginn, það var gaman að fá að sjá allar þessar knattspyrnustúlkur leggja sig alla fram fyrir sitt lið og félag og sjá þær framfarir sem eru í knattspyrnunni hjá okkur á Íslandi. Þeim sem ekki geta spilað á fleiri Símamótum þökkum við í Breiðablik fyrir komuna og hinar hlökkum við að sjá að ári.

Það er margt við að vera á knattspyrnusviðinu þessa daganna, Landsliðið að keppa á EM kvenna og þar eru margir leikmenn sem hafa spilað með Breiðabliki í eldlínunni. Við fylgjumst spennt með þeim og öllum hinum landliðsstelpunum. Áfram Ísland

En það er ekki bara Síma- og Evrópumót. Karlalið Breiðabliks er að spila í Evrópuleiki í Sambandsdeildinni. Strákarnir unnu UE Santa Coloma frá Andorra á heimavelli þeirra síðatliðinn fimmtudag í tæplega 30 stiga hita á skraufþurrum gervigrasvelli. Við þurfum trúlega ekki að hafa áhyggjur af slíkum hitatölum núna á fimmtudaginn 14. júlí þegar Andorramenn mæta á Kópavogsvöll. Það má líka treysta því að völlurinn verði vel vökvaður! Leikurinn er gríðarlega mikilvægur og með sigri komust við áfram í aðra umferð. Ég vil hvetja alla til mæta á völlinn og styðja Óskar og strákanna í þessu verkefni. Þeir eiga það skilið.

Áfram Breiðablik.

 

Flosi Eiríksson

Formaður knattspyrnudeildar