Sindri okkar Magnússon varð Íslandsmeistari í stangarstökki þegar hann gerði sér lítið fyrir og stökk 4,32 m sem er jafnframt persónulegt met hjá okkar manni. Sindri er í hópi 14 Blika sem skráðir eru til leiks á Meistaramóti Íslands, sem fram á ÍR vellinum nú um helgina, en óhætt er að segja að um sé að ræða hápunkt sumarsins í frjálsum íþróttum hér á landi.
Júlía Kristín Jóhannesdóttir varð Íslandsmeistari í 100 m grindahlaupi þegar hún kom í mark á tímanum 13,77 sek. Með þessu frábæra hlaupi stórbætti okkar kona tveggja ára gamalt aldursflokkamet í U20 en gamla metið var 14,00 sek. Tími Júlíu er annar hraðasti rafmagnstími í kvennaflokki frá upphafi en Íslandsmetið á Guðrún Arnardóttir 13,18 sek. sem hún setti árið 1996.
Karen Sif Ársælsdóttir varð Íslandsmeistari í stangarstökki kvenna en titilinn tryggði hún sér með stökki upp á 3,42 m.
Blikar lönduðu því þremur Íslandsmeistaratitlum á nýliðnu Meistaramóti en til viðbótar vann okkar fólk 6 silfur og 4 brons.
Um leið og við óskum Kareni, Sindra og Júlíu innilega til hamingju með titlana þá sendum við góðar kveðjur á allan hópinn okkar og þökkum öllum fyrir frábært mót.