Hákon ásamt Ásgeiri formanni félagsins

StórBlikinn og öðlingurinn Hákon Sverrisson fagnar nú 50 ára afmæli. Saga Hákonar er  tengd órjúfanlegum böndum þróun Breiðabliks.

 

(Foreldrar hans, Sverrir Davíð Hauksson og Birna Guðmundsdóttir, hafa verið mjög virk í starfi félagsins í áratugi. Sverrir pabbi hans var meðal annars formaður knattspyrnudeildar og Birna mamma hans formaður kvenfélags Breiðabliks.)

 

Það kom því ekki á óvart að Hákon fór ungur að sparka bolta hjá félaginu. Hann var hluti af mjög sterkum yngri flokka árgangi Blika og unnu þeir drengir marga titla í yngri flokkum Breiðabliks.

 

Hákon náði sjálfur mjög langt á knattspyrnuvellinum og spilaði sinn fyrsta meistaraflokks leik aðeins 17 ára gamall árið 1990. Þegar yfir lauk fjórtán árum síðar hafði Hákon leikið 270 leiki fyrir meistaraflokkinn og skorað í þeim

9 mörk. Hann er áttundi leikjahæsti leikmaður meistaraflokks Breiðabliks frá upphafi.

 

Hann lék einnig 35 leiki fyrir yngri landslið Íslands og eitt ár lék hann sem atvinnumaður með þýska liðinu Holstein Kiel þar sem hann spilaði 18 leiki og skorði 1 mark.

 

Hákon á einnig 48 leiki með Augnabliki á árunum 2008 til 2015 og 12 leiki með Ými á árunum 2005 og 2006.

 

Hákon hefur starfað sem kennari og hefur hæstu gráðu menntunar frá KSÍ (UEFA A) og hefur verið einn af lykilþjálfurum barna- og unglingastarfsins hjá Breiðablik í fjölmörg ár með góðum árangri.

 

Árið 2016 tók hann við starfi yfirþjálfara yngri flokka Breiðabliks og hefur skilað frábæru starfi þar.

 

Hákon hefur þjálfað flesta ef ekki alla uppalda leikmenn meistaraflokks karla þannig að sá frábæri árangur sem hefur náðst í þeim flokki á undanförnum árum er ekki síst að þakka þvi góða grasrótarstarfi sem Hákon hefur skilað.

Hákon er sannur Silfurbliki