Frjálsíþróttahluti RIG, Reykjavík International Games fór fram sunnudaginn 4. febrúar. Breiðablik átti hóp keppenda á mótinu og voru þau öll sér og félaginu til mikils sóma.
Þorleifur Einar og Guðjón Dunbar náðu frábærum árangri í langstökki, þar sem Þorleifur tók gullið með risa bætingu og stökki upp á 7,09 m. Guðjón lengdi sig einnig og endaði með persónulegt met upp á 6,88 m. Júlía Kristín náði bæði frábærum árangri og bætingum í 60 metra hlaupi kvenna á tímanum 7,65 sek. og náði persónulegu meti í langstökki með stökki upp á 5,76 m. Bjarni Hauksson keppti í kúlu og endaði í 4. sæti með kast upp á 13,38 m.
Stefán Kári átti frábært 1500 m hlaup þar sem hann hljóp á sínum besta tíma til þessa 4:14,72. Þá hlupu þeir Jón Kristófer og Daníel Þór einnig undir merkjum Blika.
Ungliðarnir okkar stóðu sig einnig frábærlega í keppni U16. Samúel Örn sigraði í 60 metra hlaupi U16 ára á persónulegu meti og Hansel Esono bætti sig einnig. Patrekur Ómar sigraði í 800 metra hlaupi U16 ára og Þorbjörg Gróa bætti sig einnig í sömu grein.