100. héraðsþing UMSK var haldið með pomp og prakt síðastliðinn fimmtudag í hátíðarsal Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar.
Hæst ber að nefna að meistaraflokkslið Breiðabliks í knattspyrnu karlamegin var valið lið ársins en strákarnir náðu m.a. sögulegum árangri í evrópukeppni á síðasta tímabili.
Þess ber einnig að geta að hinir miklu Blikar, Ólafur Björnsson og Geirlaug B. Geirlaugsdóttir, voru sæmd gullmerki ÍSÍ á þinginu ásamt því að Halldór Arnarson var sæmdur silfurmerkinu.
Áslaug Pálsdóttir, formaður frjálsíþróttadeildar Breiðabliks, hlaut svo starfsmerki UMFÍ og Matthildur B. Stefánsdóttir, formaður þríþrautardeildar Breiðabliks, var kjörin í varastjórn UMSK.
Breiðablik óskar áðurnefndum einstaklingum innilega til hamingju með viðurkenningarnar en öll eiga þau það sameiginlegt að hafa unnið ómetanlegt starf í þágu félagsins.
Eins og hverju aldarafmæli sæmir var svo kynnt útgáfa á nýrri bók sem fer yfir hið mikla framfaraskeið héraðssambandsins en titill bókarinnar er “Aldarsaga UMSK”.