Eysteinn framkvæmdastjóri Breiðabliks tók við verðlaununum fyrir lið ársins

100. héraðsþing UMSK var haldið með pomp og prakt síðastliðinn fimmtudag í hátíðarsal Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar.

Hæst ber að nefna að meistaraflokkslið Breiðabliks í knattspyrnu karlamegin var valið lið ársins en strákarnir náðu m.a. sögulegum árangri í evrópukeppni á síðasta tímabili.

Þess ber einnig að geta að hinir miklu Blikar, Ólafur Björnsson og Geirlaug B. Geirlaugsdóttir, voru sæmd gullmerki ÍSÍ á þinginu ásamt því að Halldór Arnarson var sæmdur silfurmerkinu.

Áslaug Pálsdóttir, formaður frjálsíþróttadeildar Breiðabliks, hlaut svo starfsmerki UMFÍ og Matthildur B. Stefánsdóttir, formaður þríþrautardeildar Breiðabliks, var kjörin í varastjórn UMSK.

Breiðablik óskar áðurnefndum einstaklingum innilega til hamingju með viðurkenningarnar en öll eiga þau það sameiginlegt að hafa unnið ómetanlegt starf í þágu félagsins.

Eins og hverju aldarafmæli sæmir var svo kynnt útgáfa á nýrri bók sem fer yfir hið mikla framfaraskeið héraðssambandsins en titill bókarinnar er “Aldarsaga UMSK”.

Nánar má lesa um ársþingið og jafnframt finna hlekk fyrir glæsilegu 736 síðna bókina með því að smella hér.