Blikinn Birna Kristín Kristjánsdóttir varð um helgina Smáþjóðameistari í langstökki þegar hún setti mótsmet á Smáþjóðameistaramótinu á Gíbraltar með risa stökki upp á 6,46 m en stökkið er jafnframt Íslands- og aldursflokkamet í flokki 23 ára og yngri. Gamla metið var frá 2012 og hljóðaði upp á 6,27 m sem þýðir að Birna Kristín bætti metið um heila 19 cm og er stökkið jafnframt næst lengsta stökk íslenskrar konu frá upphafi! „Mér leið ótrúlega vel og var mjög fersk á mótinu og það fór allt eins og það átti að fara. Ég var létt á mér og gerði öll stökkin gild svo þetta var bara stórkostlegt,“ sagði okkar kona þegar við heyrðum í henni hljóðið, alsæl með sigurinn og afrekið!
En þetta var ekki eina Blikagullið á Gíbraltar um helgina því Júlía Kristín Jóhannesdóttir sigraði einnig 100 m grindahlaup kvenna á tímanum 14;36 sek. sem þýðir að Breiðablik eignaðist ekki einn Smáþjóðameistara í frjálsum heldur tvo! Við erum að rifna úr stolti og sendum Birnu Kristínu, Júlíu og þjálfarateymi Breiðabliks innilegar hamingjuóskir.