Meistaramót Íslands er án efa einn af hápunktum innanhússtímabilsins í frjálsíþróttum og var blásið til mikillar veislu í Laugardalshöllinni helgina, 22.-23. febrúar þegar mótið fór fram. Til að toppa veisluna var Íslandsmót fatlaðra haldið á sama tíma og var margt af okkar allra besta frjálsíþróttafólki mætt á völlinn til að keppa í sínum greinum á báðum mótum. Árangur keppenda lét svo sannarlega ekki á sér standa og var mikið um bætingar og persónuleg met hjá okkar fólki.

7 verðlaun komu í hlut Blika á MÍ eða 2 gull, 3 silfur og 2 brons sem skilaði körlunum 3. sæti í stigakeppninni og 3 verðlaun á ÍF eða 2 gull og 1 silfur. Stigahæsta afrek karla átti Þorleifur Einar Leifsson en hann hljóp frábærlega í 60 m grindahlaupi þar sem hann kom í mark á tímanum 8,08 sek, sem gaf honum 1015 stig. Þess má geta að þessi tími Þorleifs er annar besti tími sögunnar í 60 m grindahlaupi innanhúss og ansi nálægt Íslandsmetinu í greininni sem er 7,98 sek.

Við óskum Blikunum okkar innilega til hamingju með frábæran árangur og bíðum spennt eftir því sem koma skal!

Áfram Breiðablik – innan vallar sem utan!

Heildarúrslit mótanna og skiptingu verðlauna má sjá á vefsíðunni mot.fri.is