Ingvar Ómarsson gerði góða ferð tli Evrópu um síðustu helgi. Hann tók þátt í tveimur maraþonfjallahjólamótum sem eru hluti af maraþonmótaröðinni hjá Alþjóðahjólreiðasambandinu (UCI). Fyrri keppnin, Roc D’azur fór fram á föstudaginn í Fréjus í Frakklandi. Keppnin var 84km löng og heildarhækkun var 2170m. Ingvar var mjög framarlega meirhlutann af leiðinni en gaf aðeins eftir í lokin og endaði í 33. sæti af 142 hjólurum í meistaraflokki sem kláruðu. Tími Ingvars var 4:18:41 en sigurvegari varð Þjóðverjinn Andreas Seewald á tímanum 3:48:28 en hann er efstur á heimslistanum í maraþon fjallahjólreiðum. Ingvar fékk 40 stig á heimslistanum fyrir þetta afrek. Ingvar keyrði svo 500km leið strax eftir keppni til Girona á Spáni þar sem hann keppti á sunnudaginn í Latramun keppninni. Hún er 77km löng og með yfir 2000m hækkun og mun erfiðari en sú fyrri. Keppni gekk öfugt miðað við fyrri keppnina en Ingvar var í vandræðum fyrri hlutann af keppninni en náði svo góðum seinni hluta þar sem hann náði mörgum hjólurum og endaði í 32. sæti af 190 hjólurum sem kláruðu í meistaraflokki en um 40 hjólarar luku ekki keppni. Tími Ingvars var 4:58:25 en sigurvegari varð heimamaðurinn Francesc Guerra Carretero. Ingvar náði í vor inn á topp 100 á heimslistanum sem er besti árangur sem Íslendingur hefur náð í hjólreiðum en svo færðist hann niður listann eftir því sem fleiri keppnir voru haldnar erlendis sem hann komst ekki í. Árangurinn um helgina lyftir honum aftur inn á topp 100 og það sem meira er að nú er Ingvar kominn á topp 100 á þremur heimslistunum hjá UCI. Hann er númer 45 á heimslistanum fyrir maraþon fjallahjólreiðar, númer 63 á MTB maraþon world series listanum og er svo kominn í sæti 99. í ólympískum fjallahjólreiðum. Ingvar stefnir á fleiri keppnir í maraþonmótaröðinni í haust og það verður gaman að fylgjast með árangri hans þar.