-Frá knattspyrnudeild Breiðabliks

 

 

Nú í árslok þegar við horfum til baka yfir árið gleðjumst við yfir árangri og framförum hjá iðkendum og afreksfólki knattspyrnudeildar Breiðabliks.

 

Um leið minnumst við með hlýhug þeirra Blika sem fallið hafa frá á árinu sem er að líða. Í þeim hópi eru starfsfólk til áratuga, öflugir sjálfboðaliðar og stuðningsfólk. Þeim og þeirra fjölskyldum færum við okkar dýpstu þakkir fyrir öll þeirra störf fyrir knattspyrnudeild Breiðabliks.

 

Einn þeirra sem féll frá árinu er Guðmundur Eggert Óskarsson sem lést 8. febrúar síðast liðinn. Guðmundur var fæddur 29. apríl 1935, bjó alla ævi í Kópavogi og tók virkan þátt í margvíslegum félagsmálum í ungu og vaxandi bæjarfélagi, auk þess sem hann starfaði lengi hjá Kópavogskaupstað. Guðmundur starfaði um árabil fyrir knattspyrnudeildina, meðal annars sem gjaldkeri, og var gerður að heiðurfélaga Breiðabliks 1990.

Guðmundur ánafnaði í erfðaskrá rétt um 200 miljónum kr. til knattspyrnudeildar Breiðabliks. Fjármununum er ætlað að styrkja við knattspyrnudeildina og sérstaklega tekið fram að ,,skal sú fjárhæð sem kemur til arfs skiptast jafnt milli karla- og kvennadeildar“

 

Þessi rausnarlega gjöf mun nýtast deildinni til að efla starf knattspyrnudeildar, en ekki er gert ráð fyrir að fjármunirnir verði nýttir í beinan rekstur, heldur til einstakra verkefna og framþróunar á starfi knattspyrnudeildar Breiðabliks.