Vignir Vatnar Stefánsson, skákmaður úr Breiðablik, varð í gærkvöldi Íslandsmeistari í skák í fyrsta skipti.
Vignir hafði betur í æsispennandi bráðabana gegn stórmeisturunum og margföldum íslandsmeisturum Hannesi Hlífari Stefánssyni(13x ísl.meistari) og Guðmundi Kjartanssyni(3x ísl.meisari), en fyrir þá sem ekki muna þá er Vignir einnig stórmeistari og einmitt sá nýjasti hér á landi eða frá því í mars á þessu ári.
Allir þrír voru jafnir með átta og hálfan vinning eftir að hefðbundnu keppnisfyrirkomulagi lauk. Við tók þá hraðskák þar sem að allir þrír tefldu tvisvar við hvern.
Í fyrri umferðinni hafði Vignir betur gegn Guðmundi, því næst skildu Vignir og Hannes jafnir áður en að Guðmundur sigraði Hannes.
Í seinni umferðinni náði Vignir svo aftur í sigur gegn Guðmundi sem þýddi að Vigni myndi duga jafntefli í seinni skák seinni gegn Hannesi.
Jafntefli reyndist einmitt niðurstaðan og Vignir stóð því uppi sem Íslandsmeistari í skák árið 2023.
Breiðablik óskar Vigni innilega til hamingju með titilinn!