Í gær var góður félagi okkar Árni Guðmundsson, fyrrum formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, borinn til grafar eftir stutt en erfið veikindi. Árni var fæddur árið 1955 og því 63 ára þegar hann lést.
Hann kom inn í stjórn knattspyrnudeildar árið 1988 þegar mikill vöxtur var í rekstri deildarinnar. Iðkendum var að fjölga mjög hratt og metnaður að aukast hjá stjórnendum að gera betur í starfinu.
Árni sat í stjórn í fimm ár allt til haustsins 1992, þar af tvö síðustu árin sem formaður. Á þessum tíma var sandgrasið tekið í notkun á félagssvæði Breiðabliks og árangur meistaraflokkanna varð betri og betri.
Meistaraflokkur kvenna varð til dæmis Íslandsmeistari þrjú ár í röð, 1990, 1991 og 1992. Meistaraflokkur karla vann sér sæti meðal hinna bestu árið 1990 og náði mjög góðum árangri í úrvalsdeildinni árið 1991.
Árni vann mikið og óeigingjarnt starf fyrir Blika á þessum árum. Hann var sæmdur viðurkenningunni “Silfurbliki” á afmælisfundi Breiðabliks árið 1995. Knattspyrnudeild Breiðabliks sendir fjölskyldu Árna innilegar samúðarkveðjur. Minning um góðan Blika lifir!