Sóknarmaðurinn Þórir Guðjónsson hefur ákveðið að ganga til liðs við Blikaliðið. Þórir, sem hefur undanfarin ár spilað með Fjölni, gerði í dag tveggja ára samning við knattspyrnudeild Breiðabliks. Þórir sem er 27 ára gamall á að baki 164 leiki með meistaraflokki og hefur skorað í þeim 44 mörk. Hann er uppalinn Valsari en gekk til liðs við Fjölni árið 2011. Þórir á einnig að baki níu leiki með yngri landsliðum Íslands.
Þórir átti mjög gott tímabil með Grafarvogsliðinu í fyrra þegar hann skoraði átta mörk í Pepsí deildinni. Það gekk ekki eins vel í ár, frekar en hjá öðrum í Fjölnisliðinu og voru mörkin ekki nema þrjú sem hann setti í deildinni. Þjálfari okkar Blika, Ágúst Gylfason, þekkir hins vegar vel til Þóris eftir ár sín sem þjálfari hjá þeim gulklæddu. Leikmaðurinn blómstraði undir stjórn Ágústar og verðum gaman að sjá til þessa kraftmikla sóknarmanns í grænu treyjunni á næsta keppnistímabili. Velkominn í Kópavoginn Þórir Guðjónsson!