Afmælishátíð Breiðabliks var haldin sunnudaginn, 16. febrúar síðastliðinn.
Hátíðin tókst vel til að mati viðstaddra og virtust afmælisgestir vera í skýjunum.
Sólin mætti stundvíslega fyrir “Ferðina að upphafinu”, sögugöngu í boði Sögufélags Kópavogs, þar sem rölt var að Vallargerðisvellinum og til baka, með mörgum skemmtilegum viðkomum á leiðinni.
Eftir gönguna var svo öllum boðið inn í Smárann þar sem að heiðursverðlaun voru veitt, ræður haldnar, söngvar sungnir og að sjálfsögðu var gætt sér á Blikagrænni afmælisköku.
Samhliða dagskránni í Smáranum þá var einnig boðið upp á andlitsmálningu og kynningu á frjálsíþróttastarfi Breiðabliks í tengibyggingunni, knattleiki og hoppukastala í Fífunni, myndasýningu eftir Frímann Inga Helgason á skjám í anddyri og að lokum var sýnd kvikmyndin “70 ára saga Breiðabliks á 70 mínútum” eftir Martein Sigurgeirsson.
Í tilefni dagsins ákvað aðalstjórn Breiðabliks að heiðra 14 einstaklinga.
Fjórir voru sæmdir nafnbótinni Heiðursbliki, sem er æðsta viðurkenning félagsins fyrir framúrskarandi starf í þágu félagsins.
Nýjustu Heiðursblikarnir eru: Andrés Pétursson, Indriði Jónsson, Ásta B. Gunnlaugsdóttir, Kristján Jónatansson.
Einnig voru tíu aðilar sæmdir nafnbótinni Gullbliki, sem veittur er þeim einstaklingum sem hafa unnið mikið og heilladrjúgt starf í þágu félagsins.
Nýjustu Gullblikarnir eru: Marteinn Sigurgeirsson, Heiðar Bergmann Heiðarsson, Ásgeir Friðgeirsson, Benedikt Guðmundsson, Magnús Kr. Einarsson, Guðmundur Sigurbergsson, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Magnús Árni Magnússon, Ingibjörg Hinriksdóttir, Pétur Ómar Ágústsson
Breiðablik vill nýta tækifærið og þakka öllum gestum kærlega fyrir komuna!