Um helgina fór fram sterkt danskt mót sem heitir Ishoj Karate Cup, þar var keppt bæði í unglinga, U21 og fullorðins flokkum. Íslenska landsliðið í karate fór á mótið og áttum við Blikar tvo fulltrúa þar, þær Örnu Katrínu Kristinsdóttur og Svönu Kötlu Þorsteinsdóttur.

Svana Katla byrjaði keppni í kata kvenna þar sem 19 keppendur voru skráðir frá 5 löndum. Svana fór auðveldlega í gegnum fyrstu tvær umferðirnar, vann danskan keppanda 5-0 og svo sænskan keppanda 4-1. Í áttamanna úrslitum mætti hún finnsku landsliðskonunni Bess Mänty sem fór með sigur úr viðureigninni, þar sem Bess fór í úrslit fékk Svana Katla uppreisnarviðureignir og möguleika á að keppa um 3ja sætið. Í fyrstu umferð uppreisnar mætti hún sænskum keppanda sem Svana vann 5-0 en í viðureigninni um 3ja sætið mætti hún Cecelie Scharff sem hafði betur. Árangur Svönu Kötlu á þessu sterka móti var því 4-5.sætið.

Arna Katrín byrjaði á að keppa í kumite kvenna -68kg flokki, þar mætti hún Söndru Nousiainen í fyrstu umferð. Arna byrjaði á að ná fyrsta stiginu og hélt því forskoti lengi vel en í seinni hluta viðureignar náið Sandra 2 stigum á Örnu og því lauk hann með sigri Söndru. Sandra féll úr leik í næstu umferð og því hafði Arna lokið keppni. Næst keppti Arna í kumite U21 -68kg þar sem hún mætti Melina Leino frá Finnlandi í hörku viðureign, þær skiptust á að sækja og skora og endaði viðureignin 3-3, þar sem Melina hafði náð fyrsta stigi þá vann hún viðureignina. Melina datt út í næstu umferð og því fékk Arna ekki möguleika á uppreisn til að keppa um 3ja sætið.

Á meðfylgjandi mynd má sjá þær Svönu Kötlu og Örnu Katrínu.