Fyrsti bikarmeistaratitill körfuknattleiksdeildar Breiðabliks kom í hús í gær, á fimmtugasta afmælisári deildarinnar. Eftir spennusigur á ÍR þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en í blálokin, nældu strákarnir okkar í unglingaflokki í titilinn eftirsótta.
Á leið sinni í úrslitaleikinn lögðu strákarnir lið Þórs frá Akureyri, Njarðvík og Fjölni.
Leikurinn í gær var spennandi frá fyrstu mínútu, þar sem liðin skiptust á leiða. Bæði lið voru skipuð leikmönnum sem spila stór hlutverk hjá meistaraflokkum félaganna og var leikurinn ákaflega skemmtilegur, eins og við var að búast. Þegar 12 sekúndur voru eftir af leiknum var staðan 82-80 Blikum í vil. Í lokasókn ÍR-inga, kom Breiðablik í veg fyrir að ÍR næði að jafna metin og setja leikinn mögulega í framlengingu. Það var svo Árni Elmar sem kláraði leikinn á vítalínunni. Lokatölur 84-80.
Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar flautan gall í leikslok, hjá strákunum sem og á áhorfendapöllunum. Liðið er skipað leikmönnum sem flestir hafa spilað saman upp alla yngri flokka Breiðabliks og hafa lengi stefnt að stórum titli, sem loks var landað.
Þjálfarateymi Breiðabliks á hrós skilið, en leikur liðsins var vel skipulagður og yfirvegaður. Lárus þjálfari sagði í lok leiks að þetta væri stund sem hann ætti aldrei eftir að gleyma, enda væri þetta fyrsti titillinn sem hann hampaði sem þjálfari.
Snorri Vignisson var valinn maður leiksins og var vel að því kominn, en Snorri skilaði 23 stigum, 12 fráköstum og 4 stolnum boltum.
Við erum sannarlega stolt að hafa innan okkar raða þessa frábæru körfuboltamenn og það er ljóst að framtíðin er björt í Smáranum.
Til hamingju með titilinn strákar og ÁFRAM BREIÐABLIK!