Um síðustu helgi varð Breiðablik Íslandsmeistari í unglingaflokki eftir að hafa borið sigur úr býtum gegn Njarðvík.

Áður höfðu strákarnir lagt KR í undanúrslitum í hörkuleik.

Leikurinn gegn Njarðvík var jafn framan af og voru bæði lið að finna körfuna ágætlega. Blikar voru tveimur stigum yfir í hálfleik, 34-32.

Eftir að liðin komu úr búningsklefunum tóku Blikar öll völd á vellinum og voru skyndilega komnir í 10 stiga forystu.

Í fjórða leikhluta settu Njarðvíkingar upp pressuvörn sem Blikum gekk erfiðlega að leysa, hægt og rólega minnkuðu Njarðvíkingar muninn, þegar skammt var eftir að leiknum var munurinn á liðunum aðeins 2 stig. Þá stigu Árni Elmar og Arnór Hermans upp og settu báðir risastór skot undir lokin og stóðu Blikar uppi sem Íslandsmeistarar, lokatölur 81-76.

Sveinbjörn Jóhannesson var valinn maður leiksins en hann skoraði 14 stig, tók 9 fráköst, gaf 5 stoðsendingar og varði 2 skot. Stóri strákurinn af Suðurlandinu hitti svo sannarlega á daginn sinn! Geggjaður.

Við óskum strákunum innilega til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn!