Í tilefni af frétt á Vísi.is í dag, þar sem ummæli Þorsteins Halldórssonar þjálfara kvennaliðs Breiðabliks í viðtali við annan fjölmiðil eru slitin úr samhengi, vilja Knattspyrnudeild Breiðabliks og Þorsteinn Halldórsson taka fram að á engan hátt er verið að gera lítið úr öflugu fótboltastarfi í Keflavík í viðtalinu.

Viðtalið snýst meðal annars um lofandi feril ungrar knattspyrnukonu sem er uppalin hjá Keflavík og leikur nú með Breiðabliki og landsliði Íslands. Mun hún vafalaust og vonandi spreyta sig á enn stærra sviði í framtíðinni.

Breiðablik og Keflavík hafa lengi átt góð samskipti. Innan raða okkar Blika ríkir mikil virðing fyrir því starfi sem Keflvíkingar og þjálfarar þess reka í knattspyrnunni og því veigamikla hlutverki sem Keflavík gegnir í knattspyrnuhreyfingunni. Það er von okkar að fréttaflutningur dagsins, sem er eins og áður segir tekinn úr samhengi, varpi á engan hátt skugga á samskipti Breiðabliks og Keflavíkur

F.h. Knattspyrnudeildar Breiðabliks
Orri Hlöðversson formaður knd
Þorsteinn Halldórsson þjálfari mfl. kvenna