Aldursflokkameistaramót Íslands, AMÍ 2017, var haldið í Laugardalslaug 24. og 25 júní. Sunddeild Breiðabliks átti 23 keppendur á mótinu en alls voru 277 keppendur úr fjórtán félögum víðs vegar af landinu. Óhætt er að segja að keppendur okkar hafi staðið sig gríðarlega vel því Breiðablik náði 4. sæti í heildarstigakeppninni rétt á eftir Íþróttabandalagi Reykjavíkur. Sundfélag Hafnarfjarðar vann mótið eftir harða keppnir við Íþróttabandalag Reykjanesbæjar. Veitt voru stig fyrir 6 efstu sætin í hverri grein en synt var í 38 greinum á mótinu. Blikar náðu í 31 einstaklingsverðlaun og þrenn verðlaun fyrir boðsundsgreinar. Mjög góð stemning var í sundhópnum og grænir áhorfendur voru einnig áberandi á pöllunum.Á lokahátíð mótsins voru svo veitt verðalun fyrir stigahæstu einstaklingana í hverjum aldursflokki en þá eru reiknuð út alþjóðleg stig eftir tímanum sem næst í þremur bestu sundgreinum hvers einstaklings. Keppt var í þremur aldursflokkum í báðum kynjum og náði Breiðablik að sigra tvo flokka af þessum sex sem er einstakur árangur.Í flokki telpna (13-14 ára) sigraði Kristín Helga Hákonardóttir með samtals 1615 stig fyrir 100 metra skriðsund, 200 metra skriðsund og 400 metra skriðsund.Í flokki pilta (15-17 ára) sigraði Brynjólfur Óli Karlsson með samtals 1184 stig fyrir 100 metra skriðsund, 400 metra skriðsund og 100 metra baksund. Þjálfarar hópsins eru Arna Þórey Sveinbjörnsdóttir, Karl Pálmason, Gunnar Egill Benonýsson og Sigurður Daníel Kristjánsson. Sunddeild Breiðabliks er gríðarlega stolt af þessum öfluga hópi og óskar keppendum, þjálfurum og aðstandendum innilega til hamingju með frábæra helgi í Laugardalnum. Nú tekur sumarfrí við hjá flestum sundmönnum okkar og æfingar hefjast á ný í ágúst.