Síminn gerir heimildamynd um fremstu knattspyrnukonur landsins sem allar spiluðu á Símamóti Breiðabliks

Síminn vinnur að heimildarmynd um íslensku stelpurnar okkar sem hafa fótað sig í knattspyrnuheiminum og náð langt. Þar verður einnig sagt frá þeim sem eru að hefja leika en allar eiga þær það sameiginlegt að hafa spilað á elsta stúlknamóti landsins – Símamóti Breiðabliks. Myndin verður sýnd í kringum HM í knattspyrnu og Símamótið en Síminn og Breiðablik hafa undirritað áframhaldandi samstarfsamning til fimm ára. Knattspyrnumótið verður haldið í 33. sinn í sumar og hefur samstarfið við Símann staðið í 8 ár. Þátttakendur hafa verið um 2.000 ár hvert.

Ólafur Hrafn Ólafsson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, segir þáttagerð sem þessa hvetja stúlkur áfram. „Samstarfið við Símann hefur vaxið og dafnað. Saman hefur okkur með keppendum og aðstandendum tekist að skapa spennandi mót fyrir stúlkur og frábært að sjá Símann einnig styðja við kvennaknattspyrnuna með sjónvarpsþáttagerð. Það er í þessu sem öðru að við uppskerum eins og við sáum. Meiri áhugi skapar enn sterkari umgjörð. Við fögnum áframhaldandi samstarfi Breiðabliks og Símans.“
Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri hjá Símanum, segir Símann stoltan af samstarfinu. „Rétt eins og Breiðablik hefur rutt veg kvenna í knattspyrnu viljum við hjá Símanum leggja okkar af mörkum svo kvennaknattspyrna fái þá athygli sem hún á skilið. Breiðablik hefur staðið afar faglega að málum og á skilið hrós fyrir úthald og elju í kringum mótið.“

Beinar útsendingar frá mótinu voru í Sjónvarpi Símans síðasta sumar og geta áhugasamir enn séð leikina í Sjónvarpi Símans Premium. Síminn stefnir að því að senda einnig út leikina í beinni sjónvarpsútvarpsútsendingu nú. Þá heldur Síminn úti vefsíðu með öllum helstu upplýsingum á meðan keppnin stendur yfir og styrkir mótið með hefðbundnum hætti.