Breiðablik hefur sigrað báða leiki sína gegn Vestra í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta, en þrjá sigra þarf til þess að komast áfram í umspil um sæti í Dominosdeild á næsta keppnistímabili.

Blikar hófu einvígið gegn Vestra á heimavelli þann 15. mars síðastliðinn og unnu þann leik mjög sannfærandi, lokatölur 93-64 grænum í vil. Breiðablik tók öll völd á vellinum senmma leiks og stigu aldrei af bensíngjöfinni, liðið spilaði glimrandi varnarleik og náði að ýta Vestramönnum út úr flestum þeirra aðgerðum. Chris Woods, spilandi þjálfari liðsins, fór fyrir sínum mönnum með 27 stig og 10 fráköst. Einnig skilaði Erlendur Ágúst Stefánsson góðu dagsverki en hann hafði það verðuga verkefni að dekka Nebosja Knezevic, helsta sóknarvopni Vestra, sem skoraði aðeins 9 stig í leiknum. Það var frábær stemning í Smáranum og vel mætt á pallana, Kópacabana sáu til þess að áhorfendur gengu hásir út að leik loknum.

Í seinni leiknum, sem spilaður var vestur á Ísafirði síðastliðinn sunnudag, mættu leikmenn Vestra mun einbeittari og ákveðnari til leiks á meðan Breiðablikspiltar virtust með hugann annars staðar. Blikar mættu flatir og bitlausir, lögðu sig ekki fram í vörn og lítið flæði var í sóknarleiknum, á meðan Ísafjarðarpiltar spiluðu af hörku og uppskáru 11 stiga forskot þegar flautað var til hálfleiks.

Blikar rönkuðu við sér í 3. leikhluta og söxuðu hratt og örugglega á forskot Vestra og komust í 1 stigs forystu fyrir loka leikhlutann. Í 4. leikhluta, sem var jafn og spennandi allan tímann, var aldrei mikill munur sem skildi liðin að. Þegar ein og hálf mínúta voru eftir af leiknum var Vestri 4 stigum yfir og allt útlit fyrir að sigur þeirra væri í höfn.

Þá tók Árni Elmar Hrafnsson til sinna ráða og setti risastóra þriggja stiga körfu og minnkaði muninn í 1 stig. Þetta kveikti heldur betur í Blikum sem settu 8 stig í röð án þess að Vestri næði að svara. Niðurstaðan, 6 stiga sigur Breiðabliks á mjög erfiðum útivelli.

Næsta viðureign liðanna mun fara fram í Smáranum þann 22. mars kl 19:15. Fari svo að Breiðablik sigri þann leik er liðið komið áfram í umspil upp á sæti í Dominosdeildinni. Í hinu einvíginu eigast við Hamar og Snæfell og þegar þetta er skrifað leiða Hamarsmenn einvígið 1-0.

Ljóst er að eitt þessarra fjögurra liða mun spila í úrvalsdeild að ári. Við hvetjum alla Blika til þess að fjölmenna í Smárann á fimmtudaginn kemur og styðja strákana okkar upp í úrvalsdeild, upplifa frábæra stemningu og gæða sér á ljúfengum hamborgurum fyrir leik.