Ingvar hjólar til sigurs í fjallahjólamaraþoni (76km) í Slagelse 25. mars 2018

Ingvar Ómarsson, hjólreiðamaður úr Breiðablik, tók í dag þátt í svokallaðri maraþon fjallahjólakeppni (76km FitnessDK Marathon) sem fram fór í Slagelse í Danmörku. Ingvar býr og æfir í Danmörku og nýtir svona keppnir til að undirbúa sig fyrir átökin á komandi keppnistímabili. Hann tók einnig þátt í þessari keppni í fyrra og varð þá í 7. sæti en í dag gerði hann sér lítið fyrir og vann keppnina á tímanum 3:49:11,2 og var 45 sek á undan næsta keppanda. Hjólaðir voru fjórir 19km hringir og mikill hraði var í keppninni til að byrja með. Fljótlega náðu hann og annar keppandi góðri forystu og Ingvar náði svo að vinna inn 30 sek forskot á hring númer 2 sem hann hélt og bætti aðeins við á næstu tveimur hringjum. Til hamingju Ingvar. Meðfylgjandi mynd tók Martin Paldan.