Strákarnir í meistaraflokki karla gerðu frábæra ferð í Hveragerði í gærkvöldi, þegar þeir sigruðu heimamenn í Hamri 104-108 í framlengdum leik og hirtu þar með heimavallarréttinn í einvíginu. Sigra þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér sæti í Dominosdeild á næsta keppnistímabili.

Það sannaðist í gær að körfubolti er leikur áhlaupa, en Kópavogspiltar hófu leikinn af miklum krafti og uppskáru 17 stiga forystu snemma í fyrri hálfleik. Áður en flautað var til hálfleiks hrukku heimamenn heldur betur í gang, átu upp forskot Blika á örskömmum tíma og voru tveimur stigum yfir í leikhléi. Hamarsmenn tóku öll völd í leiknum snemma í 3. leikhluta og voru að hitta mjög vel fyrir utan. Á meðan voru Blikar að þröngva boltanum sóknarlega gegn pressuvörn heimamanna, en Blikar töpuðu boltanum 29 sinnum í leiknum. Hamarsmenn því skyndilega komnir 10 stigum yfir. Jónas, þjálfari Blika, tekur þá leikhlé og við það vöknuðu strákarnir til lífsins og hertu varnarleikinn, náðu í auðveldar körfur og hittu vel fyrir utan þriggja stiga línuna. Hamarsmenn áttu fá svör við þessu áhlaupi Breiðabliks og Blikar komnir 6 stigum yfir fyrir 4. leikhluta.

Lokaleikhlutinn var stál í stál, en Breiðablik alltaf skrefinu á undan þar til alveg í blálokinn þar sem strákarnir virtust þá ætla að kasta sigrinum frá sér. Jeremy Smith fékk þá boltann í sínar öruggu hendur í lokasókninni og sá til þess að leikurinn færi í framlengingu. Breiðablik var sterkari aðilinn í framlengingunni og sigurinn því verðskuldaður. Jeremy Smith var besti maður vallarins þetta kvöld, en Blikar fengu frábært framlag frá öllum sínum leikmönnum og skilaði bekkurinn til að mynda 47 stigum.

Það var vel mætt úr Kópavogi, en Breiðablik bauð stuðningsmönnum upp á fría sætaferð til Hveragerðis og var gaman að sjá hversu margt stuðningsfólk lagði leið sína á völlinn. Kópacabana tóku öll völd í stúkunni löngu fyrir leik og létu aldrei af hendi. Geggjaðir drengir þar á ferð. Næsti leikur í einvíginu er næstkomandi sunnudag, 8. apríl kl 19:15 á heimavelli.

Breiðablik: Jeremy Her­bert Smith 19/​8 frá­köst/​7 stoðsend­ing­ar, Snorri Vign­is­son 17/​16 frá­köst, Er­lend­ur Ágúst Stef­áns­son 14, Svein­björn Jó­hann­es­son 14/​9 frá­köst, Árni Elm­ar Hrafns­son 14/​5 frá­köst/​7 stoðsend­ing­ar, Hall­dór Hall­dórs­son 14/​5 frá­köst, Christoph­er Woods 12/​10 frá­köst, Ragn­ar Jós­ef Ragn­ars­son 4.