Bakvörðurinn öflugi, Jonathan Hendrickx, hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við Breiðablik nú einungis nokkrum mánuðum eftir að hann gekk til liðs við félagið.
Hendrickx hefur átt glæstan feril þrátt fyrir ungan aldur. Árið 2012 fór hann frá belgíska liðinu Standard Liège til hollenska 1. deildarliðsins Fortuna Sittard þar sem hann lék til ársins 2014. Þaðan lá leiðin til FH þar sem hann var lykilmaður í meistaraliði félagsins árin 2015 og 2016, en árið 2017 var Hendrickx svo seldur til portúgalska liðsins Leixões. Hendrickx gekk til liðs við Breiðablik í nóvember síðastliðinn.
Þessi fábæri bakvörður hefur komið gríðarlega sterkur inn í Blikaliðið frá því að hann kom til félagsins í haust og hefur gefið mikið af sér bæði innan vallar sem utan.
Við óskum Blikum og Jonathan Hendrickx innilega til hamingju með samninginn og hlökkum til að sjá hann í grænu treyjunni á næstu misserum.
Knattspyrnudeild Breiðabliks