Fyrsta bikarmót sumarsins í götuhjólreiðum fór fram í dag á Reykjanesinu. Meistarflokkur hjólaði 105km leið frá Sandgerði í gegnum Grindavík og upp á Festarfjall og snéri þar við og fór sömu leið til baka. A-flokkur hjólaði 63km leið frá Sandgerði að Reykjanesvirkjun og til baka.

Breiðablik átti um þriðjung keppanda í meistaraflokki enda hefur veturinn verið gríðarlega góður hjá okkur æfingalega séð. Ingvar Ómarsson vann karlaflokkinn en hann gerði árás á leiðinni upp Festarfjall (um 100m hækkun á 2km kafla) og Hafsteinn var sá eini sem náði að fylgja honum og þeir hjóluðu til saman til baka í endasprett sem Ingvar vann. Þetta er fyrsti bikarsigur Breiðabliks í götuhjólreiðum karla en Rannveig vann þessa keppni í kvennaflokki í fyrra. Breiðablik átti einnig 3 aðra hjólara á topp 10 í mótinu, þá Steinar, Stefán Orra og Bjarna Garðar með Fannar og Sæþór þar rétt á eftir. Í meistarflokki kvenna varð Rannveig í 3. sæti og Hrefna Sigurbjörg í 5. sæti sem er frábær árangur hjá þeim báðum en Hrefna var að keppa í fyrsta skipti í meistaraflokki. Þær voru einnig elstar í meistaraflokki kvenna og Blikar áttu einnig elstu karla í meistaraflokki karla.
Í 63km keppninni varð Krístín Vala í 2. sæti sem er gríðarlega góður árangur þar sem Karen Axels sigraði þann flokk. Sigrún varð í 7. sæti í þessum flokki í sinni fyrstu götuhjólakeppni sem er algjörlega frábært. Í karlaflokki varð Hilmar Ævar fremstur Blika í 12. sæti en sá flokkur einkenndist af miklum árekstrum og slysum sem okkar fólk slapp að mestu við.
Því miður var það ekki svo í 32km keppninni en þar var okkar yngsti keppandi, Viktor Már Sindrason sem er einungis 13 ára, hjólaður niður af fullorðnum einstakling á mikilli ferð. Hann slapp sem betur fer við beinbrot en til að gefa mynd af árekstrinum þá er hjólið hans ónýtt. Fyrir utan þetta óhapp þá gerðu Blikar góða ferð á Reykjanesið, næsta mót er fjallahjólamót í Öskjuhlíð á laugardaginn og svo er vortímataka Breiðabliks eftir viku.
Mynd: Arnold Björnsson.