Breiðablik hefur gert langtímasamning við Sportabler. Sportabler er íslenskt vef- og snjallsímaforrit sem gerir skipulagningu og samskipti í íþróttastarfi margfalt skilvirkari og einfaldari. Kerfið er ætlað þjálfurum, iðkendum, foreldrum, og starfsmönnum íþróttafélaga. Breiðablik hefur undanfarna mánuði unnið í samstarfi við Sportabler að þróun og prófun forritsins og hefur innleiðing hjá fyrstu flokkum félagsins gefist vel.

Markmið Sportabler er að styðja við og efla skipulagt íþróttastarf með tvennum hætti. Annars vegar með því að auka skilvirkni í skipulags- og samskiptamálum, og hins vegar með því að bjóða kennsluefni í þjálfun jákvæðra persónuleikaþátta í gegnum íþróttir, þar sem æfingar t.d. í sjálfstrausti eru fléttaðar með markvissum hætti inn í íþróttastarfið. Sportabler starfar með leiðandi íþróttafélögum og stofnunum á Íslandi. Fyrstu íþróttafélögin til að taka Sportabler Organiser í notkun voru Valur og Breiðablik. Á síðustu misserum hafa fleiri félög fylgt í kjölfarið. Sportabler hefur hlotið styrk úr Tækniþróunarsjóði Íslands, úr Lýðheilsusjóði og frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Hákon Sverrisson Yfirþjálfari yngri flokka í knattspyrnu:
“Sportabler kerfið sparar þjálfurum okkar mikinn tíma í hverri viku við skipulagningu og samskipti í tengslum við íþróttastarfið. Viðburðastjórnun og utanumhald um mætingu leikmanna er allt mun skilvirkara en áður. Viðtökur foreldra og iðkenda hafa verið mjög góðar og er fólk sammála um að Sportabler auðveldi til muna að hafa yfirsýn yfir æfinga- og leikjaplanið”.

Eysteinn Pétur Lárusson Framkvæmdastjóri Breiðabliks:
„Það er frábært að hafa klárað samning við Sportabler og okkur hlakkar til samstarfsins á komandi árum. Knattspyrnudeildin hefur nú þegar hafið notkun á forritinu hjá yngri flokkum félagsins. Í framhaldinu verður síðan öllum deildum í félaginu boðin aðild að Sportabler og stefnum við að kynningu og innleiðingu hjá öðrum deildum félagsins haustið 2018.“

Markús Máni M. Maute Framkvæmdarstjóri Sportabler:
“Við erum stolt af þessum samningi og um leið þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að starfa með einu af leiðandi íþróttafélögum á Íslandi við þróun Sportabler.  Knattspyrnudeild Breiðabliks er á heimsmælikvarða á sínu sviði og hefur fólkið hjá félaginu, iðkendur og aðstandendur þeirra reynst okkur afar vel sem samstarfs- og þróunaraðili. Það er frábært að Breiðablik komi til með að nota Sportabler næstu árin og taka um leið virkan þátt í þróun hugbúnaðarins. Í sameiningu munum við vinna hörðum höndum að því að gera gott íþróttastarf enn betra, við erum bara rétt að byrja.

Frekari upplýsingar veita:
Eysteinn Pétur Lárusson – eysteinn@breidablik.is
Markús Máni M. Maute – markus@sportabler.com