Íslandsmótið í tímatöku fór fram í kvöld við góðar aðstæður á nýrri keppnisbraut. Að þessu sinni var hjólað á lokuðum vegi frá Seltúni til norðurs með Kleifarvatni og að malbiksenda þar sem snúið var við á keilu, samtals 19km leið. Hækkun í brautinni var um 200m í nokkrum stuttum og frekar bröttum brekkum. Í karlaflokki sigraði Rúnar Örn Ágústsson (Breiðablik) á tímanum 25:28 og Ingvar Ómarsson (Breiðablik) varð annar 15 sek á eftir Rúnarr en hann mætti á götuhjóli með letingja. Hafsteinn Ægir Geirsson úr HFR varð þriðji. Í kvennaflokki sigraði Rannveig Anna Guicharnaud á tímanum 30:54 og varð hún 6 sek á undan Ágústu Eddu Björnsdóttur úr Tindi sem varð Íslandsmeistari í fyrra. Í þriðja sæti varð svo hin unga Kristín Edda Sveinsdóttir úr HFR en hún vann einnig U23 flokkinn. Rúnar og Rannveig urðu bæði í 2. sæti í fyrra í þessari keppni og mættu mjög einbeitt til leiks að þessu sinni og unnu verðskuldaða sigra. Breiðablik var því með tvöfaldan sigur í fyrsta Íslandsmóti sumarsins. Einnig var keppt á götuhjólum í sömu braut samhliða þessari keppni og þar urðu Blikarnir Róbert Farestveit og Hrefna Sigurbjörg í 2. sæti. Næsta Íslandsmót verður á sunnudaginn í hópstarti.