Íslandsmeistaramótið í 25m laug (ÍM25) fór fram í Ásvallalaug dagana 9. -11. nóvember. Undanrásir voru syntar á morgnana og úrslit hófust svo kl 16:30 alla þrjá dagana. Sunddeild Breiðabliks sendi ungt og öflugt lið til leiks og átti félagið alltaf 10-11 sundmenn í úrslitum alla dagana þar sem 8 bestu úr undanrásum syntu. Samtals vann félagið 8 Íslandsmeistaratitla í einstaklingsgreinum og tvo titla í boðsundum. Sundmenn félagsins hlutu 10 silfur og 9 brons í einstaklingsgreinum og fjögur silfur og tvenn bronsverðlaun í boðsunum. Einnig settu tveir sundmenn aldursflokkamet í 1500m skriðsundi, þau Patrik Viggo Vilbergsson í flokki 15-17 ára á tímanum 15:37.02 og Freyja Birkisdóttir í flokki 11-12 ára á tímanum 18:23.52. Patrík Viggó varð fjórfaldur Íslandsmeistari í eftirtöldum greinum, 400m fjórsundi, 400m, 800m og 1500m skriðsundi. Brynjólfur Óli varð þrefaldur Íslandsmeistari í eftirtölfum greinum í 200m baksundi, 200m flugsundi og í 200m skriðsundi. Kristín Helga varð Íslandsmeistari í 200m skriðsundi kvenna en hún varð jafnframt yngsti Íslandsmeistari mótsins en hún er 14 ára gömul. Í boðsundum urðu Blikar Íslandsmeistarar í 4x200m skriðsundi karla á nýju piltameti (15-17 ára). Sveitina skipuðu Patrik Viggó, Brynjólfur Óli, Kristófer og Róbert Andri. Blönduð sveit Breiðabliks varð Íslandsmeistari í 4x100m skriðsundi. Í sveitinni voru Patrik Viggó, Brynjólfur Óli, Ragna Sigríður og Kristin Helga.
Næsta stóra verkefni er Norðurlandamótið í sundi í 25m laug sem fer fram í byrjun desember í Oulu í Finnlandi. Sjö sundmenn úr sunddeild Breiðabliks hafa náð lágmörkum á það mót en þeir eru: Brynjólfur Óli, Davíð Fannar, Guðný Birna, Kristín Helga, Patrik Viggó, Ragna Sigríður og Regína Lilja og fara þau öll nema Davíð Fannar. Freyja Birkisdóttir synti einnig undir lágmarki en hefur ekki aldur til að fara á mótið.

Kristín Helga Íslandsmeistari

Brynjólfur Óli Íslandsmeistari

Patrik Viggó Íslandsmeistari