Bergur Þór Steingrímsson hefur verið ráðinn dómarastjóri knattspyrnudeildar Breiðabliks. Bergur hefur áratuga reynslu af dómgæslu bæði í knattspyrnu og í körfuknattleik og hefur dæmt samtals um 2.000 leiki á ferlinum. Bergur er í dag starfandi eftirlitsmaður dómara hjá KSÍ og hefur komið að skipulagningu dómaramála áður.

Það er mikið fagnaðarefni fyrir Breiðablik að fá Berg til starfa. Hans hlutverk verður að hjálpa til við að byggja upp dómarastarfið hjá Breiðablik, manna dómara á leiki ásamt því að hlúa að og hjálpa þeim öflugu dómurum sem eru fyrir hjá félaginu að bæta sig. Þá mun hann hjálpa til við að fjölga í hópi dómara hjá félaginu en ljóst er að við þurfum fleiri dómara til þess að manna þann mikla fjölda leikja sem fram fer í yngri flokkum Breiðabliks.

Bergur hefur þegar komið að skipulagningu knattspyrnudómaranámskeiðs með KSÍ sem fram fer á okkar vegum þann 5.mars n.k. Við hvetjum alla sem áhuga hafa á knattspyrnudómgæslu til að mæta á námskeiðið og einnig er öllum sem áhuga hafa á dómgæslu velkomið að afla sér frekari upplýsinga með að hafa samband við Berg í gegnum netfangið bergurst@talnet.is

Við bjóðum Berg velkominn til starfa. Hann mun hjálpa okkur við að gera gott starf betra