Þetta eru undarlegir tímar sem við erum að upplifa þessar vikurnar vegna Covid 19 og hefur Breiðablik ekki farið varhluta af því ástandi sem nú varir frekar en aðrir í samfélaginu okkar.
Það hefur hins vegar sýnt sig undanfarnar vikur hversu mikilvægt er að hafa trausta innviði þegar á móti blæs eins og hefur sýnt sig í okkar félagi. Þessir innviðir hafa verið byggðir upp jafnt og þétt síðastliðin 70 ár en félagið fagnaði einmitt 70 ára afmæli þann 12. febrúar s.l.
Breiðablik hefur hins vegar ekki komist hjá því frekar en önnur félög að grípa til varúðarráðstafana m.a. vegna þess tekjufalls sem nú þegar er orðið auk þess sem allt starf hefur legið niðri undanfarnar vikur. Tekjufallið snýr fyrst og fremst að því að sýningarhaldi, árshátíðum, námskeiðum hjá deildum sem fella hefur þurft niður auk þess sem einhverjir styrktaraðilar hafa eðlilega haldið að sér höndum meðan þetta ástand varir. Þá er enn óljóst með sýningar sem fyrirhugaðar eru í haust sem og íþróttaveisluna sem halda átti í sumar auk mótahalds ofl. hjá einstökum deildum félagsins.
Þá hefur verið leitað til starfsfólks, þjálfara og leikmanna félagsins um að taka á sig tímabundnar skerðingar. Það er ekki sjálfsagður hlutur en alls staðar hefur þessum aðgerðum verið mætt með skilningi og ber sérstaklega að þakka fyrir það.
Þá hefur einnig verið aðdáunarvert að fylgjast með því hvernig þjálfarar félagsins hafa „tæklað“ samkomubannið og haldið m.a. úti heimaæfingum fyrir sína iðkendur og haldið þannig öllum við efnið við þessar aðstæður. Vil ég nota tækifærið og þakka þjálfurum, iðkendum, starfsfólki, stjórnum deilda og sjálfboðaliðum fyrir frábær störf við þessar krefjandi aðstæður.
En það er nú yfirlett þannig að það birtir alltaf að lokum og með hækkandi sól munum við komast í gegnum þetta saman. Þá bárust einnig þær gleðilegu fréttir að hægt verður að hefja æfingar hjá deildum aftur 4. maí n.k. en með takmörkunum þó.
Við munum hins vegar gera okkar besta að láta þetta ganga upp og fara að öllu með gát og kveða niður þessa bölvuðu veiru í eitt skipti fyrir öll.
Það eru spennandi tímar framundan og ég er sannfærður um að árið 2020 verði árið okkar á sviði íþróttanna.
Fyrir hönd aðalstjórnar Breiðabliks óska ég öllum Blikum nær og fjær gleðilegs sumars.
Sveinn Gíslason, formaður Breiðabliks