Sex af þeim tíu fulltrúum sem tilnefndir eru sem íþróttakarl og kona Kópavogsbæjar fyrir árið 2020 koma úr Breiðabliki.

Kópavogsbúar geta haft áhrif og kosið um íþróttakonu og íþróttakarl ársins 2020. Sem fyrr segir stendur valið stendur á milli tíu íþróttamanna sem íþróttaráð Kópavogs valdi úr innsendum tilefningum frá íþróttafélögunum. Kjósa má einn karl og eina konu.

Rafræn íbúakosning um íþróttakarl og íþróttakonu Kópavogs 2020 verður á heimasíðu Kópavogsbæjar í gegnum þjónustugátt Kópavogs.

Kosning hefst þann 30.desember 2020 og lýkur 10. janúar 2021.

Íþróttafólk Breiðabliks sem hlaut tilnefningu má sjá hér að neðan.

Arnar Pétursson frjálsíþróttamaður


Arnar Pétursson, langhlaupari, er frjálsíþróttakarl ársins 2020 hjá Breiðabliki. Arnar gekk til liðs við uppeldisfélagið sitt í upphafi árs og hefur á árinu unnið 6 Íslandsmeistaratitla bæði í götuhlaupum og langhlaupum á braut. Arnar er besti maraþonhlaupari landsins undanfarin ár og er A landsliðsmaður í frjálsum íþróttum. Hann stefnir ótrauður á ólympíulágmark í maraþoni fyrir komandi Ólympíuleika í Tokyó. Arnar er fyrirmynd annarra hlaupara á landsvísu og býr yfir mikilli ástríðu fyrir íþrótt sinni. Auk þess að stunda hlaup sjálfur starfar Arnar sem hlaupaþjálfari og fyrirlesari en hann býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu af hlaupum.

Ingvar Ómarsson hjóleiðamaður

Ingvar Ómarsson

Ingvar átti mjög gott ár bæði á erlendis sem  og hér heima á Íslandi. Hann varð Íslandsmeistari í tímaþraut, í ólympískum og maraþon fjallahjólreiðum. Hann varð einnig bikarmeistari í götuhjólreiðum og í tímaþraut. Hann keppti fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramótum í tímaþraut og ólympískum fjallahjólreiðum í Imola á Ítalíu. Ingvar keppti jafnframt á nokkrum öðrum mótum á vegum UCI erlendis og náði hann m.a. 15.sæti í fjallahjólamóti á C1 stigi í Grikklandi sem er jafnframt hans besti árangur á heimsbikarmóti til þessa. Ingvar er hjólreiðamaður ársins hjá Hjólreiðreiðasambandi Íslands.

Karen Sif Ársælsdóttir frjálsíþróttakona úr Breiðabliki

Karen Sif Ársælsdóttir

Karen Sif Ársælsdóttir er frjálsíþróttakona ársins 2020 hjá Breiðabliki.  Hún er Íslands- og bikarmeistari kvenna í stangarstökki bæði innan- og utanhúss.  Karen hefur verið einstaklega sigursæl í sinni grein í ár og  hefur ekki tapað keppni í stangarstökki á árinu. Karen Sif var nýlega valin í A- landsliðið í frjálsum íþróttum fyrir árið 2021. Karen stundar íþrótt sína af alúð og er góður félagi og fyrirmynd. Hún setur stefnuna á enn frekari bætingar í stönginni og æfir núna við mjög góðar aðstæður í Danmörku.

Patrik Viggó Vilbergsson  sundmaður

Patrik Viggó Vilbergsson

Patrik Viggó er orðinn sterkasti langsundsmaður landsins.  Hann varð fjórfaldur Íslandsmeistari í 50m lauginni núna í sumar. Hann náði lágmörkum fyrir Evrópumeistaramót unglinga sem átti að vera núna í sumar en varð ekki vegna covid 19.  Patrik var einnig búin að ná lágmörkum fyrir Norðurlandameistaramótið sem átti að fara fram núna í desember en hætt var við það. Patrik Viggó er mjög metnaðarfullur sundmaður sem ætlar sér að ná langt og er góð fyrirmynd fyrir yngri sundmenn.  Hann er samviskusamur, vinnusamur og jákvæður. Patrik er í landsliðshóp Íslands í sundi.

Sóley Margrét Jónsdóttir kraftlyftingakona

Sóley Margrét Jónsdóttir

Sóley Margrét  varð íslandsmeistari í +84kg flokki í réttstöðulyftu á Íslandsmótinu sem haldið var í Fagralundi í sumar  er hún lyfti 212,5kg.  Þá varð hún Íslandsmeistari í +84kg flokki sem og stigahæsta konan í opnum flokki á Íslandmeistaramótinu sem haldið var í september sl.  Þar lyfti  hún 265kg í hnébeygju, 180kg í bekkpressu sem jafnframt er íslandsmet, 220kg í réttstöðulyftu sem er íslandsmet og 665kg í samanlögðu sem er íslandsmet nýtt í +84kg flokki.  Þetta er mesta þyngd sem íslensk kona hefur lyft frá upphafi kraftlyftinga hér á landi.

Sonný Lára Þráinsdóttir knattspyrnukona

Sonný Lára Þráinsdóttir

Sonný Lára var frábær í marki íslandsmeistara Breiðabliks á tímabilinu og átti stóran þátt í því að liðið fagnaði Íslandsmeistaratitlinum á dögunum. Sonný er fyrirliði liðsins og er mikill leiðtogi og fyrirmynd innan sem utan vallar.  Sonný lék alla 15 leiki Breiðabliks í Pepsi Max deildinni og fékk einungis á sig 3 mörk sem er stórkostlegt afrek. Sonný átti margar góðar markvörslur í sumar og átti meðal annars stórleik þegar Breiðablik lagði Val í síðasta leik tímabilsins sem var í raun hreinn úrslitaleikur um Íslandsmeistaratitilinn. Sonný er í A-landsliðshóp Íslands sem er á leiðinni á EM í Englandi árið 2022.

 

Félagið er afar stolt að eiga jafn frambærilegt afreksíþróttafólk innan raða sinna og óskum við þeim öllum innilega til hamingju með árangurinn á árinu.